154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

árshátíð Landsvirkjunar.

[15:41]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég bara ítreka það sem ég hef hér sagt að það er skynsamlegt af opinberum stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins að sýna hófsemd í útgjöldum af þessum toga um leið og menn gera, eins og eðlilegt er nú til dags, vel við sitt starfsfólk. Fyrst hér er verið að nefna fjárhæðir og setja í samhengi við rekstur Landsvirkjunar eða önnur verkefni í landinu þá má svo sem alveg halda því hér til haga að Landsvirkjun hefur aldrei í sögunni gengið betur heldur en undanfarin ár, hefur aldrei greitt hærri arð til ríkisins, sem skilar sér inn í fjárlög á hverju ári, heldur en undanfarin ár á sama tíma og fyrirtækið hefur nánast greitt upp allar sínar skuldir.