154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

aðgerðir til eflingar náms í heilbrigðisvísindum.

[16:12]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa mikilvæg skref verið stigin í heilbrigðiskerfinu og má þar nefna eflingu heilsugæslunnar sem Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, réðst í. Nýr Landspítali rýkur upp og mun gera allt umhverfi starfsfólks og sjúklinga betra og nútímalegra. Áskoranir og þær jákvæðu breytingar og efling sem þessi ríkisstjórn hefur komið á undanfarin ár krefjast þess að starfsfólki í heilbrigðisvísindum fjölgi, ekki síst í ljósi þess að þjóðin eldist, og mikilvægara en nokkru sinni að mannauður haldist í hendur við aðrar framkvæmdir á þessu sviði.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að styðja sérstaklega við nám í heilbrigðisvísindum í ljósi mönnunarvanda innan heilbrigðiskerfisins?