154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

aðgerðir til eflingar náms í heibrigðisvísindum.

[16:15]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör og ég er ákaflega glöð að heyra af metnaði á þessu sviði. Sú staða hefur ítrekað komið upp að nemendur í hjúkrunarfræði sem hafa staðist kröfur námsins fá þrátt fyrir það ekki leyfi til að halda áfram námi þar sem einungis 75 pláss hafa staðið til boða. Um áramót var staðan sú að kvótinn í Háskóla Íslands var ekki fylltur á sama tíma og nokkrir sáu ekki fram á að komast áfram í námi við Háskólann á Akureyri sem þýðir að nemendum er í raun mismunað eftir því hvar þeir kjósa að stunda nám. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, þó að hún hafi komið aðeins inn á það í fyrra svari: Hefur samtal átt sér stað milli ráðuneytis hæstv. ráðherra og heilbrigðisráðuneytisins til að aflétta eða a.m.k. draga úr þessum hömlum í hjúkrunarfræðinámi? Er önnur vinna í gangi og samstarf milli ráðuneyta til þess að okkar námskerfi í heilbrigðisvísindum sé skilvirkara?