154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

Menntasjóður námsmanna.

935. mál
[17:59]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór hér víða. Kannski fyrst um styrkina. Þetta var í fyrsta skipti sem við vorum að innleiða hér styrkjakerfi fyrir námsmenn að norrænni fyrirmynd og þeir reynast auðvitað vel fyrir fjölda námsmanna sem hafa tekið lán í nýja kerfinu, klárað nám á tilsettum tíma og fengið niðurgreiðslu í formi þessa styrks. Hann nefnir þessa tölu, 58%. Nei, það eru þeir sem hafa tekið lán og ekki allir sem hafa uppfyllt námsframvindukröfu eða annað slíkt og fengið styrkinn þar sem það eru ákveðnar kröfur á að klára nám á ákveðnum tíma til að hljóta styrkinn eins og við sjáum í löndum sem við berum okkur saman við. Sú hugmynd að fara meira inn í styrkjakerfið, afnema allt frítekjumark, er eitthvað sem við þurfum bara að skoða og líta til reynslu annarra þjóða. Hvernig ætlum við að finna millilendingu í því hver kostnaður ríkisins er við þetta kerfi og hvernig það er sjálfbært? Það sem er auðvitað mikilvægt er að kerfið sé gagnsætt og það sé ljóst hver afkoma sjóðsins raunverulega er. Það þarf að sjást í rekstrinum hvaða fjármunir fara í kerfið. Það er því nauðsynlegt fyrir okkur að hafa þær upplýsingar og það er þess vegna sem við erum að leggja til þessar breytingar á því hvernig sjóðurinn er fjármagnaður og tryggja það að fjármálaráðherra setji reglugerð til þess að það sjáist hvernig sjóðurinn er fjármagnaður. Eins og hv. þingmaður er kannski að vísa aðeins í þá er sjóðurinn fjármagnaður á gömlu lánabókinni í stað þess að það sjáist hvað fjármögnunin raunverulega kostar ríkið, hvaða lánamál ríkið fjármagnar og þar með sjóðinn raunverulega. Þetta er mjög tæknilegt en skiptir samt mjög miklu máli til þess að geta áttað sig á þeim breytingum sem við þurfum að gera, til að hafa réttar forsendur til að meta hvað það eru miklir fjármunir sem eru að fara í kerfið frá hinu opinbera, sem er styrkjakerfi (Forseti hringir.) þar sem ríkið er að koma inn með myndarlegum hætti og styðja námsmenn á (Forseti hringir.) góðum lánakjörum sem eiga að vera betri en önnur lánakjör af því við viljum tryggja jöfn tækifæri til náms.