154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

Menntasjóður námsmanna.

935. mál
[18:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og ég held að ég og þingmaðurinn séum sammála mjög mörgu í þessu máli og kannski er þetta þá frekar samsvar en andsvar. Ég er sérstaklega sammála hv. þingmanni um að það er hlutverk Menntasjóðsins að tryggja jafnrétti til náms og þar er margt sem þarf að bæta og ég held að við hv. þingmaður séum mjög sammála um margt. Við Píratar ásamt Flokki fólksins lögðum fram frumvarp um ýmsar breytingar varðandi stöðu námsmanna sem lýsti okkar hugmyndum um það hvað við viljum gera í þessum málum. En nú lítur út fyrir það eftir næstu kosningar, sem eru í mesta lagi eftir 400 daga eða svo, að þá verði flokkur hv. þingmanns mögulega í lykilstöðu til að gera einhverjar breytingar. Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í það hverjar væru helstu breytingarnar sem flokkur hv. þingmanns myndi berjast fyrir þegar kemur að stöðu námsmanna.