154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

Menntasjóður námsmanna.

935. mál
[19:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vona að hv. þingmaður hafi ekki skilið mig svo að ég væri að leggja til að ráðherra ætti ekki að stefna að endurbótum á kerfinu bara vegna þess að það séu kosningar á næsta ári, öðru nær. Ég er mjög spenntur fyrir því að fá fram frumvörp um úrbætur á þessu kerfi sem fyrst og vona að stjórnarmeirihlutinn taki undir sem mest af þeim tillögum sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson nefndi hér áðan að hann myndi leggja fram í málinu. Það sem ég er að benda á snertir endurskoðunarákvæðið, bráðabirgðaákvæði um endurskoðun laganna. Þar var talað um að innan þriggja ára ætti ráðherra að skoða reynsluna og byggja á vel ígrunduðu máli tillögur að breytingum. Ég reiknaði með að á þeim tímapunkti myndi ráðherra koma með einhver frumvörp til þingsins. Það sem gerðist hins vegar var að ráðherra beið eiginlega fram á síðasta dag, það var nánast komið gamlárskvöld þegar skýrsla kom um þetta mat á reynslunni af Menntasjóðnum. Ég hefði viljað sjá stærra endurskoðunarfrumvarp í byrjun þessa vetrar vegna þess að við vitum, alveg óháð því hvernig pólitískir vindar blása og óháð því hvað gerist með kosningar, að veturinn fyrir kosningar, sem næsti vetur verður óhjákvæmilega í besta falli, er ekki uppskeruvetur fyrir ríkisstjórnir. Veturinn fyrir kosningar er ekki tími þar sem ráðherrar leggja fram mjög mörg mál og ætlast til að ná þeim í gegn.

Ég bara velti því upp hvort það sé eining innan stjórnarflokkanna um að setja þessar breytingar, ekki þetta frumvarp heldur þær breytingar sem ráðherra kann að koma með undir lok þessa árs, í þann forgang að stjórnarflokkarnir muni sameiginlega (Forseti hringir.) reyna að ná í gegn einhverjum úrbótum á kerfinu, sem ég hefði viljað sjá eiga sér stað núna.