154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

dómur Mannréttindadómstóls Evrópu .

[13:46]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Við þurfum að ræða hérna inni í þessum sal hvað tekur núna við. Ég kem hingað upp sem formaður eins af þeim stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi vegna þess að formennirnir voru nefnilega í vinnu með fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra um endurskoðun á stjórnarskránni þar sem m.a. var verið að skoða breytingar sem sneru að því að geta skotið ákvörðun Alþingis um gildi kosninga til Hæstaréttar. Þetta var til skoðunar í vinnu sem fyrrverandi forsætisráðherra, sem nú er farin annað, leiddi. Því varpa ég því hér upp í þessum þingsal hvort vinnan muni halda áfram núna í kjölfarið. Hver mun taka þetta upp á arma sína? Eru formenn stjórnarflokkanna sem núna eiga sæti í þessari ríkisstjórn tilbúnir að halda þessari vinnu áfram? Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn að halda þessari vinnu áfram? Við getum ekki látið þetta steyta á því að það þurfi að samþykkja allar mögulegar breytingar á stjórnarskránni í einni lotu. Það þarf að ná þessum breytingum í gegn (Forseti hringir.) áður en þing verður rofið fyrir næstu kosningar.