154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

dómur Mannréttindadómstóls Evrópu .

[13:47]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér þykir rétt að koma hérna upp og taka undir margt af því sem hefur komið fram. Það er auðvitað sjálfsögð skylda okkar núna að skoða það fyrirkomulag sem er gagnrýnt í þessum dómi. Ég hef ekki lúslesið hann en það er að sjálfsögðu verkefni okkar núna að gera það og skoða hvað í fyrirkomulaginu við getum þá tekið til frekari greiningar og frekari aðgerða eftir þörfum. Mér finnst hins vegar líka mikilvægt að það komi fram, svo að um það ríki enginn misskilningur, hvorki hér innan húss eða úti í samfélaginu, að það skiptir auðvitað mjög miklu máli að dómurinn er mjög skýr um þá nefnd sem Alþingi bar að setja á laggirnar til að greina hvernig úr þessu yrði skorið. Það er ekkert í dómnum sem tekur annað fram en að sú nefnd hafi unnið af heilindum og faglega þannig að þar liggja ekki fyrir neinar annarlegar hvatir um niðurstöðu þess anga málsins. (Forseti hringir.) En fyrirkomulagið í heild sinni er sjálfsagt að skoða og það er verkefni okkar fram undan.