154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig rak í rogastans þegar ég las grein á Vísi í gær eftir Helga Áss Grétarsson. Fyrir utan það að í greininni er beinlínis farið með rangt mál þá undra ég mig á því að varaborgarfulltrúi skuli leggja sig fram við að taka stöðu gegn ákveðnum hópi barna. Í greininni er því haldið fram að í svokallaðri Cass-skýrslu sé komist að þeirri niðurstöðu að ekki eigi að bjóða upp á kynhormónabælandi lyfjameðferð fyrir börn og ungmenni með kynama. Það kemur hvergi fram í skýrslunni, enda vinna alþjóðlegir sérfræðingar að leiðbeiningum fyrir heilbrigðisstarfsfólk og boðið er upp á þessa meðferð á öllum Norðurlöndunum. Varla er til viðkvæmari hópur í okkar samfélagi en trans börn. Við höfum fylgst með átakanlegum sögum þeirra af skilningsleysi, hatri og ofbeldi sem þessi börn og ungmenni verða fyrir í samfélaginu. Mikilvægt er að við bætum alla þjónustu, mætum þessum einstaklingum af virðingu og skilningi en grípum ekki á lofti pólitískan hatursáróður sem grasserað hefur í bresku samfélagi.

Árið 2019 voru samþykkt lög um kynrænt sjálfræði hér á Alþingi þar sem þingheimur lýsti yfir eindregnum vilja til að styðja trans og intersex fólk í réttindabaráttu sinni. Öflugur grasrótarhópur og við í VG áttum í sameiningu frumkvæði að þessari lagasetningu. Við eigum öll í þessu samfélagi að styðja þessa hópa eindregið í leit sinni að réttindum og hamingju og standa með þeim í hverri þeirri aðför sem að þeim er gerð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)