154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum með veikt fólk í fátækt, jafnvel sárafátækt, sem er að borga 32% skatt og ætti að vera skattlaust. Það þýðir að það á ekki fyrir mat eða öðrum nauðsynjum. Í sumum tilfellum er bætt ofan á skattprósentuna keðjuverkandi skerðingarskatti upp á 45% sem gerir nær 80% heildarskatt og -skerðingar. Á sama tíma borga þau sem eru eingöngu með fjármagnstekjuskatt ekki einu sinni útsvar. Þau fá alla þjónustu sveitarfélaga án þess að borga krónu til þeirra. Síðan er það sorglega þegar málefni fatlaðs fólks ber á góma að þá kemur alltaf upp kostnaður hjá ríkisstjórninni og að þessi hópur sé svo kostnaðarsamur. Hann kosti svo mikið að öll framúrkeyrsla ríkis og sveitarfélaga sé bara fötluðu fólki að kenna, sem er auðvitað sorglega kolrangt. Það er alveg með ólíkindum að við skulum alltaf vera að draga lappirnar í málefnum þeirra sem virkilega þurfa á hjálp okkar að halda. Það fer ekki á milli mála að þeir verst settu í okkar samfélagi eru ekki forgangi hjá þessari ríkisstjórn. 154 fatlaðir einstaklingar yngri en 67 ára eru hreppafluttir á hjúkrunarheimili fyrir aldrað fólk gegn vilja sínum þar sem meðalaldurinn er vel yfir 80 ár. Hver vill vera þar? Enginn hér inni. Það er alveg á hreinu. Um 100 einstaklingar eru vistaðir í dýrasta úrræðinu inni á sjúkrastofnunum vegna vanhæfni ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðs fólks.

Þingsályktunartillaga Flokks fólksins um hagsmunafulltrúa aldraða var samþykkt hér á Alþingi en ráðherra fór ekki eftir þeirri samþykkt heldur kom á símalínu og pósthólfi á island.is sem staðgengli hagsmunafulltrúans. Annar ráðherra segist ekki fara að lögum og hefur skapað ríkinu milljarða í skaðabætur vegna þess. Sá þriðji fer ekki eftir stjórnsýslulögum og selur föður sínum hlut í banka. Það er alveg með ólíkindum hvernig þessi ríkisstjórn hefur hagað sér og það er hægt að telja endalaust upp meira þar sem hún hefur klúðrað. Að framansögðu, er einhver hissa á því að Flokkur fólksins og Píratar hafi núna lagt fram (Forseti hringir.) vantrauststillögu á þessa gjörsamlega vanhæfu ríkisstjórn?