154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Tími þingsins í síðustu viku fór í það að bíða eftir því að ný eða breytt ríkisstjórn liti dagsins ljós, dýrmætur tími sem ekki var nýttur í önnur mikilvæg verkefni eins og eitt stykki fjármálaáætlun sem gefur vísbendingar um hvernig ráðstafa eigi tekjum ríkissjóðs á næstu árum. Það plagg var loksins kynnt í morgun og þar er bara alls ekki ljóst hvernig þessi nýja gamla ríkisstjórn ætlar að fara betur með fé almennings og draga úr verðbólgu. Eins hefur tafist að fylgja eftir fögrum orðum um aðstoð við Grindvíkinga en það sem gert hefur verið er alls ekki nóg. Nú hefur bæjarstjóri Grindavíkur lýst þeirri skoðun sinni að ekki verði um skólahald að ræða í Grindavík í haust og við höfum haft fregnir af því að Þórkatla sé farin að kaupa heimili fólks. Það mun hafa miklar breytingar í för með sér og hætt við að margir Grindvíkingar muni í framhaldi af sölu til Þórkötlu færa lögheimili sitt frá Grindavík. Það mun gjörbreyta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun kynntu fulltrúar margra smærri fyrirtækja í Grindavík fjárhagsstöðu sem er orðin mjög slæm þar sem þau hafa ekki getað verið með starfsemi frá því að hamfarirnar hófust eða í fimm mánuði. Fulltrúar þessara fyrirtækja hafa verið í samskiptum við stjórnmálaflokkana og óskað liðsinnis en það hefur engu skilað. Þrátt fyrir að hafa fengið styrki til að greiða laun er eigið fé þessara aðila að brenna upp og það gefur augaleið að það er ekki hægt að reka þjónustufyrirtæki þar sem engir íbúar eru. (Forseti hringir.) Það dugar ekki, virðulegur forseti, að byggja bara varnargarða utan um byggðina í Grindavík. Við þurfum að byggja varnargarða utan um fólkið sem þar bjó.