154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Helsinki-samningurinn frá árinu 1962 er gjarnan kallaður hin norræna stjórnarskrá okkar og í töluverðan tíma hefur verið kallað eftir heildarendurskoðun samningsins vegna þeirra miklu breytinga sem hafa orðið á norrænu samstarfi. Þar má nefna stóraukna áherslu á öryggis- og varnarmál, borgaralegan viðbúnað, netöryggi og loftslagsbreytingar. Þetta vantar í samninginn. Þá þarf að uppfæra oft úrelt og gamaldags orðalag með tilliti til þeirra samfélagsbreytinga sem hafa orðið síðustu áratugi.

Undanfarna mánuði hef ég leitt starfshóp á vegum Norðurlandaráðs um endurskoðun samningsins. Við skiluðum skýrslu til forsætisnefndar Norðurlandaráðs í síðustu viku og þar verður unnið áfram með tillögurnar þar til þing Norðurlandaráðs í Reykjavík í haust tekur endanlega afstöðu til þeirra. Veigamesta tillagan lýtur að því að setja inn kafla um öryggis- og varnarmálin. Tillagan endurspeglar þann veruleika sem við stöndum frammi fyrir þegar litið er til þróunarmála á heimsvísu þar sem mikilvægi svæðisbundins samstarfs á þessu sviði eykst og það á sama tíma og norrænar áherslur um frið verða áfram mjög sterkar. Starfshópurinn sem skipaður er fulltrúum allra átta norrænu landanna var sammála um velflest en þegar kom að málefnum Álandseyja, Færeyja og Grænlands varð þó niðurstaðan sú að í skýrslunni voru lagðar fram tvær tillögur sem ganga mismunandi langt hvað varðar aðild þessara þriggja landa að Norðurlandaráði.

Tilgangur endurskoðunar Helsinki-samningsins er að styrkja norrænt samstarf í nútíð og framtíð. Ég tel persónulega að full aðild Færeyja, Grænlands og Álandseyja að Norðurlandaráði styrkir þetta markmið og það hefur verið afstaða okkar í Íslandsdeild ráðsins. Norrænt samstarf hefur mögulega aldrei verið mikilvægara en í dag. Helsinki-samningurinn verður að taka á þeim áskorunum og tækifærum sem Norðurlöndin standa frammi fyrir og það væri virkilega ánægjulegt ef við næðum þeim áfanga í haust á þingi Norðurlandaráðs hér í Reykjavík undir forystu Íslands.