154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil nota þetta tækifæri hér og óska hæstv. forsætisráðherra til hamingju með embættið sitt en það er ekki annað hægt en að benda á það misklíð sem við öllum blasir núna á fyrstu dögum þessa samstarfs. Síðdegis í gær, undir kvöld, birti nýr formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs grein á visir.is þar sem farið var yfir í nokkuð löngu máli að sýn stjórnarflokkanna á það með hvaða hætti orkumál kæmust helst áfram væri mjög ólík. Skömmu áður en fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra stökk frá borði hafði komið á daginn 13 dögum eftir birtingu yfirlýsingar um sameiginlegan skilning vegna útlendingamála að skilningurinn var í engu sameiginlegur. Í morgun birtist okkur síðan fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem er þriðja áhersluatriðið sem hæstv. forsætisráðherra leggur mesta áherslu á; orkumál, útlendingamál og ríkisfjármálin, sem er því marki brennd að enn skal skilja seðlabankastjóra og starfsmenn Seðlabankans eftir eina í slagnum við verðbólguna því að ríkisútgjöldin verða hanteruð með þeim hætti að nú skal ekki ná jöfnuði, nú skal ekki ná afgangi í ríkisrekstrinum fyrr en árið 2028.

Virðulegur forseti. Það er auðvitað ekki boðleg staða að þingmenn stjórnarflokkanna og ráðherrarnir sérstaklega, sem eru svona rétt búnir að ná sér upp úr gleðiföðmum síðustu viku, finni sig í þeirri stöðu að þrjú megináhersluatriði ríkisstjórnarinnar, þrjú í raun einu áhersluatriði ríkisstjórnarinnar eins og mál eru lögð fram, eru öll í uppnámi, hvert og eitt einasta. Við hverju er að búast þegar svona er um hnútana búið?

Virðulegur forseti. Ég byrjaði þessa stuttu ræðu mína á að óska hæstv. forsætisráðherra til hamingju með nýja embættið en nú bara vona ég að einhver árangur náist í einhverju samhengi í einhverju þeirra þriggja mála áður en þessi ríkisstjórn skakklappast frá völdum.