154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Eins og við vitum hefur ríkisstjórnin í enn eitt skiptið haldið blaðamannafund í kjölfar ráðherraskipta til að reyna að sannfæra okkur um að sambúðin gangi vel. Við sjáum hins vegar öll að einn langdregnasti skilnaður Íslandssögunnar er enn að dragast á langinn og það er óttinn við sambúðarslitin sem er límið í stjórninni en ekki sameiginleg sýn á helstu verkefni. Á meðan Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa lagt áherslu á að virkja og jafnvel stokka upp ferlið sem innbyggt er í rammaáætlun til að flýta fyrir orkuvinnslu er VG að tala mjög skýrt fyrir því að rammaáætlun sé leiðarljós flokksins. Þannig orðaði formaður VG það í ræðu hér í þinginu og í grein sem hann skrifaði á Vísi í gær. Þetta stangast hressilega á við orð samstarfsflokkanna. Stefna ríkisstjórnarinnar í orkumálum er því dæmd til að mistakast. Viðreisn hefur ítrekað boðist til þess að styðja hér mál í þinginu sem rjúfa kyrrstöðuna í orkumálum og það boð stendur enn.

Það er heldur ekki trúverðugt að flokkarnir sem bera ábyrgð á vöxtum og verðbólgu sem er miklu hærri en í nágrannalöndunum segist núna ætla að kveða niður drauginn. Þetta verkefni hefur verið í fangi stjórnarinnar undanfarin misseri með mjög svo döprum árangri en samt voru engar trúverðugar áætlanir lagðar fram þegar heitin voru endurnýjuð á dögunum í enn eitt skiptið. Lykilatriði í baráttunni gegn verðbólgu er að fara betur með fjármuni almennings og forgangsraða fjármunum ríkisins betur rétt eins og heimili og fyrirtæki eru að gera núna hjá sér til að bregðast við. Stjórnin er hins vegar ekki samstiga um nauðsynlegar aðgerðir.

Útlendingamálin eru svo þriðja málið sem áhersla er lögð á. Þar talar formaður Sjálfstæðisflokksins um að loka nánast landamærunum á meðan formaður VG talar á allt öðrum nótum og um inngildingu og þá væntanlega inngildingu þeirra sem ekki mega hingað koma. Þessi ágreiningur blasir við okkur öllum eingöngu tveimur mánuðum eftir að flokkarnir blésu í lúðra og kynntu sameiginlega sýn í útlendingamálum. (Forseti hringir.) Flokkarnir þrír eru því ekki samstiga um þrjú helstu áhersluatriði sín núna þegar heitin voru endurnýjuð á dögunum. (Forseti hringir.) Það kallar á að ný ríkisstjórn verði mynduð í landinu hið fyrsta.