154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Forseti. Nú fyrir stuttu lagði ég fram frumvarp til breytinga á framhaldsskólalögum. Frumvarpinu er ætlað að liðka fyrir og styðja við framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu til að stofna heimavist fyrir nemendur sína. Af hverju? Ja, mestu fjölbreytnina í námi er að finna á höfuðborgarsvæðinu. Þar má finna fjölbreytta sérskóla eins og Menntaskólann í tónlist, en auk þess eru margar námsbrautir einungis í boði í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu eins og í list- og iðngreinum. Það er því skiljanlegt að margir nemendur leiti til höfuðborgarsvæðisins til þess að stunda nám við framhaldsskóla. Í núverandi fyrirkomulagi á nemandi á höfuðborgarsvæðinu betri möguleika á að stunda nám hvar sem er á landinu en nemandi af landsbyggðinni sem ákveður að stunda nám á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að það er mjög mikilvægt að bæta stöðu aðfluttra framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu.

Húsnæðisvandi ungs fólks sem flytur af landsbyggðinni til að stunda nám hefst gjarnan að loknum grunnskóla eða við 16 ára aldur og það er mjög algengt að foreldrar þeirra leiti á náðir ættingja og vinafólks. En það eru ekki allir í aðstöðu til þess þannig að þau leigja þá á almennum markaði með tilheyrandi kostnaði. Það að stofna heimavist á höfuðborgarsvæðinu kemur ekki í veg fyrir mikilvæga uppbyggingu framhaldsskóla um allt land. Við viljum að nemendur séu sem lengst heima hjá sér enda styrkir það byggðir og eykur líkur á því að fólk búi áfram í sínu sveitarfélagi þegar þau verða eldri. En það eru alltaf einstaklingar sem vilja fara að heiman á þessum aldri vegna þess að þau vilja stunda nám jafnvel við einhvern einn ákveðinn skóla. Það þarf því að tryggja öryggi allra nemenda á landinu og því mikilvægt að stofnuð verði heimavist á höfuðborgarsvæðinu.