154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Frú forseti. Nú er búið að birta fjármálaáætlun. Við jafnaðarfólk vorum að mörgu leyti frekar ánægð með þær kjarabætur sem komu frá ríkisstjórninni í tengslum við kjarasamninga en kölluðum eftir fjármögnun þeirra á verðbólgutímum. Við viljum sjá réttlátari skattlagningu, að horft sé til auðlindagjalds og skatta á fjármagn m.a., en kjarasamningarnir virðast hins vegar aðeins verða fjármagnaðar með útgjaldaaðhaldi í nýbirtri fjármálaáætlun. Þetta er reyndar aðhald sem hæstv. forsætisráðherra heldur hátt á lofti meðan hæstv. fjármálaráðherra heldur því fram að enginn niðurskurður sé í áætlun stjórnvalda.

Þær aðhaldsaðgerðir sem ríkisstjórnin tiltekur sérstaklega í þessari áætlun eru í fyrsta lagi frestun á upptöku nýs örorkubótakerfis um tæpt ár. Þetta kallast aðhald hjá ríkisstjórninni, þannig að fólk á örorku mun þurfa að bíða betri kjara í nafni aðhalds. Í öðru lagi er endurmat á forsendum um hve margir verða á örorku kallað aðhald, þegar ljóst er að sú þróun yrði óháð ákvörðun ríkisstjórnarinnar í framtíðinni. Til viðbótar og það sem alvarlegt er, herra forseti, er að stór hluti af aðhaldinu er lækkun á heimildum í varasjóðum og fjárfestingum sem stóð alls ekkert til að nýta. Að kalla slíkt aðhald er ekkert annað en bókhaldsbrella, hvað þá að tala um pólitíska ákvörðun. Þetta skiptir máli upp á efnahagsmálin því að mótvægisaðgerðir telja ekki gagnvart verðbólgu ef þær fela ekki í sér raunverulega ákvarðanatöku. Stóru pólitísku ákvarðanirnar í þessari fjármálaáætlun um mótvægisaðgerðir á þessum verðbólgutímum eru því frestun kjarabóta fyrir öryrkja, aðhald á sviði fjárfestinga og svo breytingar á bókhaldsstærðum sem eru ekkert annað en bókhaldsbrellur. Þá felur það auðvitað í sér aukið aðhald að halda aftur af fjárfestingum í samgönguinnviðum sem sárlega þarf fyrir þjóðarbúið og styrkingu heilbrigðiskerfisins fram í tímann. Við í Samfylkingunni, við jafnaðarfólk, hefðum gert þetta með öðrum hætti. Það má ekki halda aftur af styrkingu heilbrigðisþjónustu, samgönguinnviða og kjara örorkulífeyrisþega á kostnað aðhalds.