154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar ég steig mín fyrstu skref hér á Alþingi vorum við að fjalla um talninguna í Borgarnesi. Mér og mörgum öðrum var misboðið, bæði hér á þingi og kjósendum. Svo fór að þessa fyrstu viku mína á þingi náði ég að vera þingmaður í nokkrar mínútur. Niðurstaðan var sú að það fólk sem hlaut kjör á grundvelli endurtekningarinnar staðfesti þá niðurstöðu, staðfesti niðurstöðu sem kallaði t.d. á það að draga til baka fréttir um að í fyrsta skipti væru konur í meiri hluta á þjóðþingi. Þrátt fyrir að seinni talningin þýddi að ég yrði varaþingmaður greiddi ég atkvæði gegn því að hún gilti, lagði meira að segja fram breytingartillögu um að fyrri talningin gilti. Sú tillaga var vitanlega felld.

Nú liggur fyrir dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um að þessi meðferð á málinu stæðist enga skoðun. Það sem öllum átti að vera fullkomlega ljóst að stæðist enga skoðun, að þingmenn staðfestu sjálfir eigið kjör, hefur nú verið staðfest. Íslenska ríkið er nú orðið skaðabótaskylt fyrir að gæta ekki að hæfi þeirra sem fjalla um niðurstöðuna. Þetta bætist við ansi langan lista af hlutum sem ekki ganga við kosningar hér á landi. Nú hefur t.d. verið leyft að láta áróður hljóma á kjörstað, svo framarlega sem hátalarinn er ekki staðsettur á lóð kjörstaðar, og engu máli skiptir hvaða auglýsingar sjást frá kjörstað, svo framarlega sem þær eru ekki á lóðinni sjálfri. Þetta eru bara fá dæmi og þau eru ansi mörg önnur um hluti sem þarf að bæta; atkvæðavægi, eftirlit umboðsmanna og margt fleira. Það er löngu tímabært að við förum í þá vinnu sem þarf að fara í til að við hættum að miða kosningaumhverfi hér á landi við það að hér sé konungur og við setjum raunverulega þau viðmið sem gera það að verkum að kjósendur í landinu hafi traust á kosningum og kosningar á Íslandi verði okkur ekki til skammar á alþjóðavettvangi.