154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir hádegi kynnti hæstv. fjármálaráðherra fjármálaáætlun sína á blaðamannafundi þar sem aðstæður, ekki síst í ríkisfjármálum, voru sagðar hér í miklum blóma. Eftir hádegi stendur sami ráðherra hér í þingsal og boðar bankasölu vegna þess hvað ríkissjóður er í erfiðri stöðu. Með leyfi forseta: „Sala eignarhlutans þykir nokkuð aðkallandi til að draga úr fjárhagslegri áhættu ríkissjóðs.“ Og síðar um þá „krefjandi stöðu sem ríkissjóður stendur frammi fyrir“, enda boðaði hann í reynd þegar við hlustuðum betur að halli yrði áfram út árið 2028. Svo mikið liggur núna á að það skiptir ekki lengur máli þó að ríkisstjórnin hafi ekki getað komið sér saman um hvernig eigi að standa að faglegri umgjörð sölunnar. Nú er boðað að það sé bara best að ráðherra selji bankann sjálfur. Ég spyr: Er þetta fyrirkomulag trúverðugt? Er það boðlegt (Forseti hringir.) að sýsla svona með verðmiklar eigur almennings? Var það lærdómurinn sem ríkisstjórnin dró af mistökunum eftir álit umboðsmanns um lögbrot, eftir hæstu sekt FME frá upphafi, (Forseti hringir.)eftir fréttatilkynningu um að leggja niður Bankasýsluna, að það væri best að ríkisstjórnin væri bara sjálf með puttana í sölunni?

(Forseti (ÁsF): Forseti minnir hv. þingmenn á ræðutímann.)