154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Flokkur fólksins er alfarið á móti því að losa sig við eigur sínar, í þessu tilviki gullgæsina sem eftir lifir hjá Íslandsbanka, og líka algerlega á móti því að við seljum Landsbankann sem við viljum sjá gerðan að samfélagsbanka, sem kæmi með alvörusamkeppni inn á þann brjálæðismarkað sem fjármálamarkaðurinn okkar er í dag. Að ætla að stíga varlega til jarðar — eigum við að skoða aðeins hvað Íslandsbanki og Landsbankinn hafa greitt íslenska ríkinu í arð á árunum 2019–2023? Jú, Íslandsbanki greiddi 44 milljarða í hreinan arð. Jú, Landsbankinn 53,5 milljarða. Þessir tveir bankar, á árunum 2019–2023, greiddu sem sagt 97,5 milljarða í hreina peninga inn í ríkissjóð Íslands. Það sem af er þessu ári, 2024, hefur hreinn hagnaður bankanna verið 84 milljarðar kr., og við erum í miðjum apríl. Hverjir skyldu nú moka þessu fjármagni inn í þessa bankahít nema fyrirtækin og heimilin í landinu. Við erum hér að verða vitni að stórkostlegustu fjármagnsflutningum allra tíma í boði þessarar ríkisstjórnar. Fórnarlömbin eru fyrirtæki, lítil og meðalstór, ungt fólk sem getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið og heimilin í landinu. Millistéttin, fólk sem áður var talið að væri þokkalega vel statt og gæti nokkurn veginn náð endum saman í einu dýrasta samfélag í heimi, er orðin að fátækra stétt. Það er búið að draga millistéttina niður á það plan að eiga ekki fyrir salti í grautinn. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar og gengur bara nokkuð vel.

Það er í boði þessarar ríkisstjórnar sem fasteignamarkaðurinn hefur gjörsamlega sett allt samfélagið á hliðina. Það skortir þúsundir fasteigna. Fasteignaverð er enn að hækka. Það er enn að hækka vegna þess að þessi óhæfa ríkisstjórn veit ekki hvort hún er að koma eða fara og hún kann ekki að stjórna landinu. Það er staðreyndin í málinu. Og að nokkur skuli láta sér detta það í hug í einskiptisgræðgisaðgerð að reyna að taka 50 milljarða út úr banka sem malar gull í ríkissjóð ár eftir ár og ætla að byggja það á því að verið sé að byrgja brunninn áður en við dettum ofan í hann eftir einhver ár, þegar bankarnir eru farnir að rekast rosalega illa og allt í einu þyrfti að fara að borga með þeim. Hvurs lags eiginlega málflutningur er þetta? Hér erum við hreinlega að horfa upp á einhverja völvuspá. Við í Flokki fólksins kærum okkur bara alls ekkert um slíkt, við erum að reyna að lifa í núinu. Við erum að reyna að horfast í augu við staðreyndir eins og þær eru hér og nú í dag. Og hvað skyldi nú samfélagið vilja? Hvað viljum við gera? Viljum við fylgja stefnu Sjálfstæðisflokksins, pilsfaldakapítalistanna sem vilja selja allt sem við eigum? Í þeirra huga er það að draga úr þenslu að selja allar ríkiseigur sem þeir mögulega geta. Og hverjir skyldu nú hafa efni á því að græða á því að kaupa þær? Moldríku kapítalistavinirnir þeirra sem þeir eru málsvarar fyrir.

Hér var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, um daginn að tjá sig um það að selja t.d. Isavia, kannski RÚV, og skoða þetta allt saman, reyna að selja þetta allt saman meira og minna. Það eina sem hann sleppti var Landsvirkjun vegna þess að það hefði hleypt verulega illu blóði í landann. En ég bíð bara eftir að það detti upp. Þess vegna verðum við að vonast til þess að þessi ríkisstjórn, áður en hún gerir meiri óskunda, verði búin að hrökklast frá völdum áður en hún lifir þessa 18 mánaða lífdaga sem hún virðist eiga eftir. Mér þætti gaman að vita hvaða ógnaraðgerðum henni hefði tekist að koma af stað til að koma íslensku samfélagi í enn verri stöðu en það er í í dag.

Hugsa sér: Hvað hefur íslenska ríkið gert til að mæta þessu vaxtaokri sem er að sliga samfélagið í dag? Ekki neitt. Við eigum heilan banka og áttum annan til og það er verið að vitna í sölunni á Íslandsbanka, fyrri söluna í júní 2021, að hún hafi gengið svona vel. Það er rangt. Það var ekki einu sinni þegið að lífeyrissjóðirnir greiddu mun meira fyrir hlutinn. Það átti bara að borga 117 fyrir hlut og ef boðið var 124 í hlutinn þá var svarið bara: Nei, takk, ekki fyrir þig, annaðhvort borgar þú 117 eða þú skalt bara vera úti vinur minn. Hvers lags viðskiptahættir eru þetta eiginlega? Ég get lofað því að ef ég ætti bíl, sem ég á náttúrlega ekki, af því að ég get ekki keyrt hann, og ég setti á hann 300.000 kr. og svo kæmi einhver og segði: Heyrðu, ég skal kaupa hann og borga 400.000 kr. Nei, það kemur ekki til greina, ef þú borgar ekki 300.000 færð þú sko ekki bílinn, ekki að ræða það. Það er gengið svo frjálslega um almannafé að hér eru haldin snobbpartí í Hörpu sem kosta yfir 2 milljarða kr. Hér er í rauninni búið að leggja línurnar að því sem koma skal í anda efnahagshrunsins 2008 þegar vorið var étið. Að vísu hafa þeir tekið það fram að fylleríispartíið sem var á Egilsstöðum um helgina í boði Landsvirkjunar, upp á 100 millj. kr. — nei, það voru reyndar engar gullflögur í kampavíninu þar, það var bara júmbóþota en engar gullflögur í kampavíninu.

Er það furða að okkur sé misboðið? Ég er að fá bréf daglega frá fátæku fólki sem segir: Nú er 2. apríl og ég á ekki eina krónu af því að þær krónur sem ég hef til framfærslu hef ég þurft að greiða í húsaleigu sem hefur hækkað um tugi prósenta á síðustu þremur árum. Er það furða að manni sé misboðið hvernig farið er með almannafé á meðan verið er að heykjast við að styðja við og styrkja þá sem raunverulega þurfa á hjálp að halda? Nei, við skulum ekki taka peninga úr græðgismaskínu bankanna. Uss, uss, uss, við skulum ekki gera það. Og alls ekki leggja meira á stórútgerðina, hún á eftir að kaupa sér einhverja sumarbústaði í Dúbaí og á fleiri stöðum út um heiminn. Þó að hún sé ekki bara að verða búin að söðla undir sig landið og miðin á Íslandi heldur eigi orðið eignir og villur úti um allan heim. Við skulum passa okkur að gera það ekki. En við skulum halda áfram að skattleggja fátækt þannig að þeir sem eru með laun upp á rúmlega 320.000 kr. fái að borga skatt. Þeir skulu fá að borga skatt þó að þessi ríkisstjórn viti að það kostar 300.000 kr. að leigja kjallaraholu hér í Reykjavík í dag. Er tekið á vandanum, t.d. í sambandi við Airbnb? Er tekið á þeim vanda að 5.000 íbúðir í Reykjavík eru inni á þeim markaði? Hvaða afleiðingar hefur það? Er þessi ríkisstjórn að takast á við þær keðjuverkandi afleiðingar sem það hefur þegar flestallar eignir, sem ættu hugsanlega að geta farið í langtímaleigu og komið til móts við þá þenslu og það ófremdarástand sem ríkir á fasteignamarkaði, eru nýttar svona? Taka þau eitthvað utan um það? Eru þau að gera eitthvað í því? Eru þau að verja vígið? Nei, þau eru ekki að gera það. Þau myndu hvort sem er aldrei koma sér saman um það. Er nema furða að maður treysti ekki þessari ríkisstjórn?

Það liggur algjörlega á borðinu að einskiptisaðgerð í að selja auðlindirnar okkar núna eins og bankarnir eru, sú einskiptisaðgerð sem hér er boðuð, 50 milljarða takk fyrir, að selja 25% í Íslandsbanka eða hvaða prósenta sem verður uppi á teningnum þegar upp er staðið — hvað skyldi verða um þessa 50 milljarða kr.? Hvers vegna höfum við ekki sótt þessa peninga þangað sem allar hirslur eru fullar fjár? Af hverju reynum við að losa okkur við það sem er að verpa gulleggjum fyrir samfélagið í heild sinni? Hvers lags skilaboð eru það út í samfélagið í heild sinni? Jú, þessi ríkisstjórn er bara fyrir suma, ekki alla. Þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn kapítalistaauðvaldsins. Þessi ríkisstjórn er ekki fyrir almannahag. Almenningur væri ekki að bugast undan byrðunum sem þessi ríkisstjórn er að leggja á hann ef einhver vilji væri til þess að koma hlutunum í lag. En svo er ekki. Hér eru digurbarkalegar yfirlýsingar um það hvernig ætti að koma hlutunum í lag en ég efast ekki um að kjósendur munu láta verkin tala í næstu kosningum. Hvernig er möguleiki á því, eins og ég hef sagt, að ætla að flytja í 35.000 fasteignir á teikniborðinu hjá fyrrverandi innviðaráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, sem er núverandi hæstv. fjármálaráðherra? Ég hef gjarnan líkt því við Pappírs-Pésa. Nú er efnahagsástandinu þannig komið í dag, vaxtabyrðin er slík og þvílík, að byggingarverktakar treysta sér ekki til að byggja eftir þörfum. Þeir treysta sér ekki til að taka á sig allar þær álögur sem lántökur munu eðlilega og óneitanlega hafa í för með sér.

Nú er seðlabankastjóri örugglega brosandi á Svörtuloftum, sem var í raun að skamma okkur fyrir að sóla á okkur tærnar á Tenerife, það hefði svo slæm áhrif á efnahagsástandið í landinu, það hefði svo slæm áhrif á verðbólguna. Nú getur hann brosað vegna þess að þær aðgerðir sem hann stefndi að, að setja hér allt í frost — er það að byrja að virka? Hvað lækkaði verðbólgan aftur mikið í síðasta mánuði? Nei, hún hækkaði um 0,2%. Hvað var það aftur? Var það eitthvert grín? Er ekkert að marka þær aðgerðir sem verið er að ráðast í og níðast á fólkinu í landinu? Hvers vegna er alltaf ráðist á almenning í þessu landi? Hvers vegna eru bognu bökin alltaf beygð meira? Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða einu litlu samfélagi upp á mikið af óhæfum valdhöfum eins og við höfum þurft að glíma við á þessum stað, þar sem ég hef staðið í tæp sjö ár, kallað eftir fæði, klæði og húsnæði, grundvallarmannréttindum í lýðræðissamfélagi sem kennir sig við réttarríkið. Hvað skyldu margir geta lagst áhyggjulausir á koddann á kvöldin vitandi að þau þurfa ekki að hafa áhyggjur af morgundeginum, vitandi að þau hafa þak yfir höfuðið og mat á diskinn og geta veitt börnum sínum grunnþjónustu? Hvar eru nú allar skýrslurnar um það? Fátækt íslenskra barna hefur vaxið úr 9,1%, mismikil fátækt árið 2016, þegar ég geng í það verk að stofna Flokk fólksins, í tæp 15% í ár. Hver skýrslan á fætur annarri og úttektir sem unnar eru af sérfræðingum. Kolbeinn Stefánsson hefur verið einn af þeim aðilum sem hefur verið óþreytandi við að teikna upp og koma með upplýsingar og skýrslur um það hvernig ástandið er hjá íslenskum börnum í dag.

Er nema furða að maður sé orðinn miður sín þegar á hverjum einasta degi bætist við fjöldi bréfa sem ég er að fá þar sem fólk er hreinlega að grátbiðja um hjálp? Hverjir eiga að taka utan um samfélagið? Hverjir eiga að hjálpa þessu fólki ef það er ekki ríkisstjórn landsins? Þau voru valin til verka út af loforðaflauminum sem flæddi út úr þeim fyrir síðustu kosningar. Hvar eru efndirnar, herra forseti? Ef þessi ríkisstjórn væri starfinu vaxin væri hún löngu búin að grípa til aðgerða til að draga úr þessu vaxtaokri. Hún væri búin að beita öllum þeim tækjum sem við eigum í töskunni til að aðstoða við það að draga úr þessum vöxtum. Við hefðum meira að segja getað beitt bönkunum til þess. Það er ekkert náttúrulögmál að bankarnir séu búnir að græða 84 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins. Hvurs lags peningaupphæðir eru þetta, 84 milljarðar á fyrstu þremur mánuðum ársins? Er það eitthvert náttúrulögmál að koma heimilunum á hausinn á 15 ára fresti? Hvernig í ósköpunum getur farið öðruvísi en að fólki líði ekki vel undir svona ofbeldi? Það er ekki nóg með að það ætti að ráðast að þessum ríflega 3.000 öryrkjum og eldri borgurum sem höfðu flúið land vegna fátæktar með því að rífa af þeim persónuafsláttinn þann 1. janúar síðastliðinn heldur er gerð hrein og klár aðför að fötluðu fólki sem vinnur á vernduðum vinnustað og þarf að njóta sérstakrar aðhlynningar. Og hver er afsökunin? Þau eru of dýr, þau kosta 150 milljónir. Á sama tíma er haldið hér, eins og ég sagði áðan, yfir 2 milljarða snobbpartí í Hörpunni í fyrra sem stóð eina helgi og megnið af fína liðinu var farið samdægurs af því að þeim fannst ekki meira spennandi að vera þarna en svo, það gisti ekki einu sinni hérna.

Ég frábið mér að taka þátt í því að verja slíka ríkisstjórn. Það eina sem ég vil gera er að koma henni frá völdum og það í gær.