154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[15:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur svarið. Ég skal sjálf útskýra stefnu mína og míns flokks í ræðu hér á eftir. En ég vil bara hrósa hv. þingmanni fyrir að koma hér fram og segja nákvæmlega hver vilji Flokks fólksins er. Hann hlýtur þá að lúta að því að binda fjármuni ríkisins í fjármálafyrirtækjum eins og þeim bönkum sem við eigum í í dag. Ég spurði reyndar hv. þingmann hvort hann væri þá líka á því að bankarnir mættu fjárfesta í tryggingafélögum. Líklega var hv. þingmaður líka að leggja það til að við kaupum okkur aftur inn í sementsverksmiðjur eða annað þess háttar. Ég held að það sé bara mjög mikilvægt að fólk tali skýrt. Það hefur nefnilega verið þannig, þegar við höfum rætt bankasöluna, að flestir flokkar á þingi hafa verið sammála um að ekki væri framtíð fólgin í því að íslenska ríkið væri að reka fjármálafyrirtæki. Ég ætla reyndar að efast um að margar ríkisstjórnir, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki sæti, myndu raunverulega ganga til verka í þessum efnum. En meira að segja formaður Samfylkingarinnar sagði hér áðan að hún treysti sér til þess að losa um þetta eignarhald. Meira að segja Samfylkingin virðist vera á þeirri skoðun að það sé ekki rétt að ríkið eigi svona miklar eignir í fjármálafyrirtækjum.

Ég spyr hv. þingmann aftur: Hversu langt eigum við að ganga? Sem betur fer er það þannig að mörg fyrirtæki á Íslandi ganga vel og þegar fyrirtækjum gengur vel þá greiða þau arð til eigenda. Er hv. þingmaður raunverulega að tala fyrir því að ríkissjóður eigi bara að fara í frekari fjárfestingar í fyrirtækjum sem eru oft að ganga vel og geta greitt arð til eigenda sinna? Er það raunverulega stefna Flokks fólksins?