154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[15:19]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir mjög skemmtilegar vangaveltur hér. Staðreyndin er sú að alveg frá því að Flokkur fólksins varð til höfum við talað fyrir því að koma hér upp húsnæðiskerfi í anda verkamannabústaðakerfisins, sem við þekktum á árum áður, þar sem markmiðið var að gera öllum kleift að koma sér þaki yfir höfuðið, að eignast öruggt heimili. Við erum meira að segja það ánægð með það að eiga heimili að við erum búin að setja það inn í stjórnarskrána. Við tölum um friðhelgi heimilisins. Það er dálítið dapurt, svo að ekki sé meira sagt, þegar þessi ríkisstjórn er ekki einu sinni tilbúin að tryggja þegnunum í landinu þak yfir höfuðið. Það er nú orðið ansi langt gengið í allri þessari einkavæðingu og samkeppni á byggingarmarkaði sem dæmi. Fyrir utan það erum við náttúrlega búin að frysta svoleiðis byggingarmarkaðinn að það getur enginn byggt lengur. Þetta kerfi, sem er óhagnaðardrifið, var kallað verkamannabústaðakerfið. Síðan var líka önnur hugmynd, sem var líka mjög flott, fannst mér, alveg glæsileg, og hefur verið við lýði á Norðurlöndunum, hér í kringum okkur, þar sem tvær kynslóðir eru jafnvel að greiða af eina og sama fasteignaláninu. Ekki verðtryggt, tek ég fram, þau vita ekki hvað það er. En það er ákveðið kaupleigukerfi þar sem einstaklingurinn fær ákveðinn hluta af leiguverðinu sem hann hefur greitt — þetta er óhagnaðardrifið líka — og ef hann kemst í álnir til að yfirtaka lánin og taka við greiðslunni getur hann gert það og hluti af leigunni gengur upp í útborgun. Síðan tekur hann bara við þeim sköttum og skyldum og þeim gjöldum sem á eigninni hvíla þegar hann er orðinn tilbúinn til þess. Það er verið að gefa honum ákveðinn aðlögunartíma til að komast inn í þetta kaupleigukerfi og gefa honum tækifæri til að eiga þak yfir höfuðið. Þetta er félagslegt. Þetta skiptir máli fyrir andlega líðan. Þetta skiptir máli fyrir alla. Það líður engum vel sem veit ekki hvar hann á heima á morgun, hvað þá þegar hann er með börn.