154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:01]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í máli hv. þm. Sigmars Guðmundssonar að hann vill ekki að ríkið sé í bankarekstri og ég held að það sé mjög einfalt að taka undir þá skoðun. Við höfum séð í gegnum tíðina ýmsar ansi skrautlegar aðfarir en nú sýnist mér að það sé ósköp einfaldlega þannig að þrátt fyrir að ríkið eigi banka þá sé það ekki í beinum bankarekstri. Ef við skoðum raunverulega afkomu bankanna upp á síðkastið þá hafa þeir verið að skila tugum milljarða í hagnað. Ég hef ekki séð alveg nógu góðar skýringar á því hvernig sá hagnaður verður til en augljóslega verður hann til í efnahagslífinu. Hann verður ekki til úr engu. Ég er að velta fyrir mér hvort ekki þurfi að vera búið að leysa úr því hversu mikill þessi hagnaður er. Nú er bankakerfið að taka svipaðan hagnað og allur sjávarútvegurinn er að gera, ef við skoðum nokkur ár aftur í tímann. Þurfum við ekki að vera búin að finna út úr þessu áður en sala fer fram? Þarf ekki að vera komið á hreint að hagnaðurinn sé eðlilegur og í eðlilegu samhengi við stærð hagkerfisins áður en slíkum fjármunum, slíkum verðmætum, raunverulega framtíðarverðmætum, er ráðstafað? Augljóslega situr sá hagnaður eftir hjá ríkinu og þá eru kannski svipaðir hagsmunir að halda þeim hagnaði.