154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:05]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svar við andsvari. Eins og ég sagði áðan þá er það ekkert vandamál að vera sammála um að ríkið eigi ekki að vera á samkeppnismarkaði og ekkert endilega á bankamarkaði. En ríkið þarf samt að vera aðilinn sem setur leikreglurnar. Það að bankarnir skili á hverjum tíma tugum milljarða í hagnað — ég myndi vilja fá greiningu á því hvort það sé í eðlilegu samhengi við stærð hagkerfisins. Ég hef áhyggjur af því að svo sé ekki. Mér finnst það blasa við að ef fáir aðilar á fákeppnismarkaði eru að taka til sín alveg gríðarlega mikinn hagnað þá hljóti að vera ástæða til að staldra aðeins við og skoða, áður en þeim verðmætum verður ráðstafað, hvort við þurfum ekki að vera búin að setja einhverjar leikreglur sem tryggja hagsmuni almennings. Á endanum, alveg sama hvernig á það er litið, er það almenningur sem greiðir og býr til þennan hagnað, það er bara óhjákvæmilegt út frá þjóðhagfræðilegum sjónarmiðum að sá hagnaður verður til hjá almenningi og það er almenningur sem stendur undir þessum hagnaði. Ég vil því hvetja til þess að við skoðum hvort þetta sé eðlilegt, hvort það þurfi ekki að vera greint og komið á hreint hver sé uppruninn, hvað sé eðlilegt viðmið, áður en við seljum þessi fyrirtæki. Ef tilgangurinn er að forðast skattheimtu er ofurhagnaður í bankakerfinu bara dulin skattheimta sem skilar sér til einkafyrirtækja, ekki til ríkisins.