154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:07]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað verður hagnaður bankanna til á hverjum tíma út af alls konar hlutum. Menn hafa verið að nefna hugtakið sem hv. þingmaður hreyfir, sem er fákeppni, að skortur á samkeppni geti t.d. gert það að verkum að ýmiss konar þjónustugjöld og annað í bönkunum séu hærri en þau þurfi að vera. Það verður auðvitað einna best leyst með meiri samkeppni, myndi ég halda, meiri og virkari samkeppni á fjármálamarkaði. Þá komum við að öðru atriði, sem ég var ekkert að hreyfa sérstaklega við í ræðu minni, sem er að íslenska hagkerfið er of lokað vegna þess að við erum með gjaldmiðil sem aðrar þjóðir treysta ekkert sérstaklega mikið. Það hefur þau áhrif að við fáum ekki samkeppni að utan, t.d. á fjármálamarkaði og á mörgum öðrum mörkuðum líka. Það gerir það að verkum að tilhneigingin er alltaf sú að hér verði örfáir mjög stórir aðilar sem geta þá mögulega hagað málum þannig að hagnaðarmyndunin verður að einhverju leyti óeðlileg og á kostnað almennings í landinu. En ég held að svarið sé miklu frekar að reyna að stuðla að því að samkeppni verði meiri og virkari, bæði á fjármálamarkaði og á öðrum mörkuðum. Það myndum við t.d. gera til lengri tíma með því að búa þannig um hnútana að það yrði meira aðlaðandi fyrir stór fyrirtæki utan úr heimi að hasla sér völl á markaði í samkeppni við innlendu fákeppnisaðilana. Íslensk fákeppni eins og hún er stunduð á mörgum mörkuðum hér er meinsemd gagnvart neytendum í landinu.

Ég átta mig ekki alveg á því hvort það er nákvæmlega þetta sem hv. þingmaður var að fara út í. En ég held að frjáls og virk samkepnni, meiri samkeppni en nú er, sé skilvirkasta leiðin til að sjá til þess að hagnaður verði ekki óeðlilegur, að hann komi ekki til af einhverjum óeðlilegum hvötum, út af einhverjum fákeppnis- eða einokunartilburðum, háum þjónustugjöldum vegna þess að samkeppni skortir og þar fram eftir götunum.