154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[18:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir meðsvarið. Jú, ég myndi telja að það væri nákvæmlega leiðin. En í ljósi þess að þetta er ný leið sem við erum að fóta okkur í og ef vel tekst til er til mikils unnið, ekki bara í tengslum við þetta verkefni heldur mögulega sölu ríkiseigna í framtíðinni komi til þess, akkúrat þess vegna og aftur í ljósi þeirra umsagna sem bárust inn í samráðsgátt, þar sem verið var að vara við því nákvæmlega að vegna þess að þetta væri ný leið þyrfti að vanda til verka og svara ákveðnum spurningum, þá finnst mér mikilvægt að þingið allt, nefndin öll, fái tækifæri til að leita svara við spurningum sem upp koma og að tekið sé tillit þeirra þannig að vandað sé til verka en málið ekki keyrt áfram. Þá er ég ekki endilega að tala í einhverjum tímaramma heldur með öðrum orðum að menn vandi til verka, hlusti á þær raddir sem koma og lagi málið eins vel og mögulegt er til að taka þátt í því öll saman að byggja þetta traust upp. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli fyrir okkur.