154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[18:10]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verndar og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, um virkjunarkosti í vindorku. Framlagning þessa frumvarps er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að sérstök lög verði sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Áhersla verður lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verði að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif.

Sá sem hér stendur skipaði sumarið 2022 sérstakan starfshóp til að gera tillögur og setja fram drög að lagafrumvarpi til að ná þeim markmiðum sem stjórnarsáttmálinn kveður á um. Starfshópinn skipuðu Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, sem var formaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismaður, og Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra. Hópurinn lagði mikla vinnu í þetta verkefni og hafði samráð við fjöldann allan af hagaðilum á öllum þeim sviðum sem haft gætu snertiflöt við hagnýtingu vindorku. Starfshópurinn skilaði af sér sérstakri stöðuskýrslu, Vindorka – valkostir og greining, í apríl 2023. Í skýrslunni var ekki um eiginlegar tillögur að ræða, heldur var ákveðið að draga saman helstu álitaefni sem komið höfðu upp við vinnu starfshópsins, auk þess sem settir voru fram ýmsir valkostir um hvaða leiðir væru færar til að leysa úr þeim. Starfshópurinn taldi að slík stöðuskýrsla, þar sem fram kæmi almenn greining á málinu, gæti verið góður grundvöllur opinnar umræðu um málefnið í ljósi þess hve skammt á veg Íslendingar væru komnir í málefnum vindorku í samanburði við margar aðrar þjóðir.

Skýrslan var birt opinberlega í samráðsgátt stjórnvalda og þar var jafnframt óskað eftir umsögnum um efni hennar. Við útgáfu voru jafnframt haldnir opnir kynningarfundir um allt land um vindorku og starfshópurinn, ásamt þeim sem hér stendur, sat fyrir svörum um málefnið. Haldnir voru fjölmennir fundir í Reykjavík, á Hvolsvelli, á Egilsstöðum, í Búðardal og á Akureyri. Á umræddum fundum fóru fram líflegar og uppbyggilegar umræður um viðfangsefnið sem skýrslan fjallar um, m.a. þau áhrif sem slík starfsemi gæti haft á daglegt líf þeirra sem búa í grennd við hugsanlega virkjunarstaði.

Eins og allir þekkja hefur vindorka verið hagnýtt um allan heim með góðum árangri. Hérlendis hafa enn sem komið er ekki risið stór vindorkuver en þó hafa verið reistar einstakar vindmyllur í tilraunaskyni og Landsvirkjun er um þessar mundir að leggja grunn að talsvert stóru vindorkuveri, Búrfellslundi, sem samþykkt var af Alþingi í nýtingarflokk rammaáætlunar í þriðja áfanga hennar. Auk Búrfellslundar var annað vindorkuver, Blöndulundur, samþykkt í nýtingarflokk áætlunarinnar. Það að báðir þessir virkjunarkostir í vindorku séu komnir í nýtingarflokk rammaáætlunar er vissulega jákvætt skref sem ber að fagna. Nú er hins vegar svo komið að orkuskortur með tilheyrandi orkuskerðingu virðist orðinn viðvarandi í landinu. Eins og ég hef ítrekað bent á þá verðum við sem þjóð að bregðast við með öllum tiltækum ráðum. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef okkur á að takast að ná þeim opinberu markmiðum sem við höfum sett okkur í loftslagsmálum og varðandi kolefnishlutleysi landsins. Í þessu sambandi verður að minna á að hér á Alþingi var á árinu 2021 samþykkt að kolefnishlutleysi landsins verði náð eigi síðar en 2040 eða eftir 16 ár. Í stjórnarsáttmála kemur fram að sama ár eigi Ísland að verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða.

Það er nokkuð ljóst að hagnýting vindorku mun ekki leysa allar áskoranir í orkumálum landsins. Það verður ekki gert nema með samstilltu átaki þar sem horft er til annarrar orkuöflunar eins og jarðhita og vatnsafls auk annarra þátta eins og raforkukerfisins sjálfs og umhverfi þess ásamt því að horfa til þátta eins og t.d. betri orkunýtni og orkuöryggis. Það er hins vegar ljóst að vindorkan hefur alla burði til að verða ein af grunnstoðum sjálfbærrar orkuöflunar landsins ásamt vatnsafli og jarðhita enda er Ísland afar hentugt veðurfarslega til nýtingar vindorku.

Orkuvinnsla með vindorku heyrir undir rammaáætlun samkvæmt gildandi lögum. Á það hefur hins vegar verið bent að málsmeðferð og það ferli sem gert er ráð fyrir í rammaáætlun henti ekki að öllu leyti varðandi vindorku sem er um margt frábrugðin hinum hefðbundnu virkjunarkostum. Þar er helst að nefna að vindurinn er ekki takmörkuð auðlind eins og jarðhiti og vatnsafl auk þess sem hagnýting auðlindarinnar er ekki jafn bundin við tiltekna staðsetningu og aðrir orkukostir sem nýta verður þar sem auðlindin er staðsett. Þessi atriði ásamt fjöldamörgum öðrum tók starfshópurinn um vindorku til skoðunar við vinnu sína. Eftir ítarlega skoðun hópsins var það samdóma álit hans að meginreglan eigi að vera sú að vindorka heyri áfram undir rammaáætlun og gerir frumvarp þetta ráð fyrir því. Mikilvægt þótti að vindorkan yrði eins og aðrir virkjunarkostir metin á samræmdan og miðlægan hátt og það á sérstaklega við þegar þeir náttúruhagsmunir sem hætta er á að verði raskað við slíkar framkvæmdir eru ekki staðbundnir heldur geti varðað alla landsmenn. Hópurinn taldi að sú leið myndi efla almenna yfirsýn og stuðla að nauðsynlegum grunnrannsóknum á sviði vindorkunýtingar og sameiginlegri þekkingarsöfnun á þessum nýja orkukosti. Þá skipti einnig máli að mati starfshópsins að faglegur hluti rammaáætlunar hefur áunnið sér ákveðið traust meðal þjóðarinnar sem mikilvægt er að ríki í garð virkjunarkosta í vindorku. Starfshópurinn taldi að þessi leið gæti frekar stuðlað að sátt meðal landsmanna um starfsemi vindorkuvera.

Í frumvarpinu er einnig gerð grein fyrir öðrum megintillögum starfshópsins vegna vindorkunnar. Þar er fyrst að nefna að í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að staðinn verði vörður um miðhálendið og nokkur önnur viðkvæmustu svæði landsins. Hér er um að ræða ákveðna varfærnisnálgun sem starfshópurinn lagði til en þar kemur fram að vindorkan verði ekki byggð upp og hagnýtt á eftirfarandi stöðum, auk friðlýstra svæða á A-hluta náttúruminjaskrár sem einnig eru undanskilin hagnýtingu vatnsorku og jarðhita:

Svæði sem falla undir B-hluta náttúruminjaskrár. B-hluti skrárinnar er framkvæmdaáætlun um friðlýsingu og friðun sem Alþingi hefur ákveðið að setja í forgang á næstu fimm árum. Tillaga til þingsályktunar um B-hluta náttúruminjaskrár liggur ekki fyrir enn sem komið er.

Svæði sem eru á heimsminjaskrá UNESCO eða hafa verið tilnefnd á skrána. Fjórir staðir á Íslandi eru á skránni, þ.e. þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarður, Katla jarðvangur og Surtsey.

Svæði innan marka friðhelgunar menningarminja. Í lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, er kveðið nánar á um slík svæði þar sem kemur m.a. fram að fornleifum sem eru friðlýstar skulu fylgja 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkun þeirra. Friðhelgað svæði umhverfis aðrar fornleifar, sem ekki eru friðlýstar en njóta friðunar, skal vera 15 metrar nema annað sé ákveðið.

Svæði sem falla undir Ramsar-samninginn um votlendi. Á Íslandi eru sex svæði skráð sem Ramsar-svæði: Andakíll, Grunnafjörður, Guðlaugstungur, Mývatn og Laxá, Snæfells- og Eyjabakkasvæðið og Þjórsárver. Öll þessi svæði eiga það sameiginlegt að vera að mestu óröskuð votlendissvæði ásamt því að vera mikilvæg búsvæði fuglastofna eða yfir 1% ákveðinna stofna. Svæðin hafa þegar öll verið friðlýst nema hluti slíks svæðis innan Skútustaðahrepps.

Svæði innan marka miðhálendislínu Íslands. Hér er um meginbreytingu að ræða enda markar miðhálendislínan stærsta hlutann af hálendi Íslands. Telja verður að með því að undanskilja miðhálendi landsins slíkri hagnýtingu sé jafnframt stigið stórt skref í að vernda óbyggð víðerni hálendisins og þær einstöku náttúru- og landslagsheildir sem þar er að finna. Miðhálendið þekur um 40% af flatarmáli Íslands og hefur að mestu verið óbyggt allt frá landnámi. Því hefur verið haldið fram að á Íslandi séu um 43% af síðustu ósnertu víðernum Evrópu. Í þessu ljósi er lagt til að hagnýtingu vindorku verði frekar beint að svæðum og stöðum landsins sem rýra ekki slíka mikilvæga verndarhagsmuni með sama hætti.

Hafa verður í huga að þó að lagt sé til að víðáttumikil svæði séu í varúðarskyni undanskilin virkjunarkostum í vindorku umfram það sem gildir um hefðbundna virkjunarkosti í vatnsafli og jarðhita þá standa samt eftir margfalt fleiri mögulegir virkjunarkostir í vindorku heldur en virkjunarkostir í vatnsafli eða jarðhita. Ástæðan er auðvitað sú að hægt er að virkja vindinn á flestum stöðum eða svæðum landsins á meðan einungis er hægt að virkja vatnsorku og jarðhita þar sem auðlindirnar eru staðsettar.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til í 3. gr. að verndar- og orkunýtingaráætlun verði ekki bindandi við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga þegar um er að ræða virkjunarkosti til nýtingar vindorku. Meginregla gildandi laga er að hvorki sveitarfélög né eigandi þess lands þar sem er að finna auðlindir til raforkuvinnslu geti hindrað nýtingu staðbundinna og takmarkaðra auðlinda landsins. Þannig getur eigandi lands t.d. ekki komið í veg fyrir nýtingu vatnsafls og jarðhita á eignarlandi sínu, nema að því er varðar rétt hans til að semja um greiðslu fyrir réttindin eða rétt til bóta á grundvelli eignarnáms ef ekki nást samningar um greiðslur. Þessi meginregla endurspeglast í 1. málslið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 48/2011 þar sem mælt er fyrir um að sveitarfélögum sé skylt að gera ráð fyrir virkjunarkostum í nýtingarflokki í skipulagsáætlunum sínum.

Niðurstaða starfshópsins eftir að hafa skoðað þetta ítarlega var að vindorkan væri einfaldlega þess eðlis að óhjákvæmilegt væri að endanleg ákvörðun um það hvort virkjunarkostur rísi á tilteknum stað eða ekki eigi að vera á forræði sveitarfélags eins og gildir um aðra skipulagsskylda starfsemi. Mikilvægt er að horfa til þeirrar staðreyndar að auðlindin er hvorki staðbundin í þeim skilningi að hana þurfi að virkja á tilteknum stað eins og gildir um vatnsafl og jarðhitann né er hún takmörkuð að því leyti að einungis væri hægt að virkja hana á fáum stöðum landsins. Starfshópurinn taldi því eðlilegt að einstök sveitarfélög hefðu víðtækari heimildir en gilda um aðra virkjunarkosti til að taka ákvarðanir um slíka landnotkun innan marka þeirra í tengslum við gerð skipulagsáætlana sinna.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til í 4. gr. að við mat og tillögur um flokkun virkjunarkosta í vindorku skuli verkefnisstjórn jafnframt horfa til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi þar sem gerð er grein fyrir helstu forsendum fyrir nýtingu vindorku til orkuvinnslu. Það var ein af meginniðurstöðum starfshópsins að setja beri opinbera stefnu um vindorku. Með því væri mörkuð skýr langtímasýn um uppbyggingu þessa nýja virkjunarkosts hér á landi sem myndi verða leiðarljós þeirra sem koma að þessu málefni, hvort sem er á vegum opinberra aðila eins og ríkis, þar með talið verkefnisstjórnar rammaáætlunar, sveitarfélaga eða þeirra sem koma að slíkum málum með öðrum hætti, svo sem að hönnun og framkvæmdastigi virkjunarkosta í vindorku. Í samræmi við það mun ég hér á eftir mæla fyrir sérstakri þingsályktunartillögu á þskj. 1338, 899. mál, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi, en þessi tvö mál eru í raun samhangandi.

Telja verður að veigamesta breytingin sem lögð er til á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun komi fram í 5. gr. frumvarpsins. Greinin fjallar um sérstaka málsmeðferð virkjunarkosta í vindorku í þágu orkuskipta og kolefnishlutleysis. Verði frumvarpið að lögum er opnað á það að hægt sé að viðhafa mun einfaldari og hraðari málsmeðferð tiltekinna virkjunarkosta í vindorku enda uppfylli virkjunarkosturinn tiltekin skilyrði greinarinnar. Farið er fram á að uppfyllt séu fjögur skilyrði til þess að slík málsmeðferð komi til greina. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að þótt virkjunarkostur uppfylli ekki þessi skilyrði fyrir sérstakri málsmeðferð þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að allir virkjunarkostir eigi eftir sem áður rétt á hefðbundinni málsmeðferð samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það sé á verksviði verkefnisstjórnar rammaáætlunar að kanna hvort einstakir virkjunarkostir sem henni berast uppfylli skilyrði greinarinnar og að þeir eigi kost á að fara þessa leið. Þau skilyrði sem þarf að uppfylla koma fram í a–d-lið 1. mgr. 5. gr. og eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að virkjunarkostur falli undir hina sérstöku málsmeðferð sé að virkjunarkosturinn muni stuðla að því að ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti og kolefnishlutleysi og skuldbindingum þar að lútandi á beinni ábyrgð ríkisins. Þetta er í raun grunnskilyrði fyrir fyrir þessari sérstöku málsmeðferð tiltekinna virkjunarkosta. Gera verður ráð fyrir að vinnsla á orku til sölu á opnum og frjálsum innanlandsmarkaði falli undir skilyrðið en t.d. annar iðnaður líkt og rafmyntargröftur falli ekki undir skilyrðið. Á þessu undirbúningsstigi hugsanlegra framkvæmda verður að hafa í huga að vart er hægt að ætlast til að fyrir liggi skuldbindandi samningar um fyrirhugaða hagnýtingu raforkunnar. Við mat á því hvort skilyrðið sé uppfyllt verður verkefnisstjórn því í meginatriðum að byggja á fyrirætlunum og áformum umsækjendanna eins og þeir lýsa þeim í umsókn og byggja matið á því.

Í öðru lagi að virkjunarkosturinn sé innan landsvæðis sem almennt telst hafa verið raskað af mannavöldum. Eins og rakið er í skýringum á tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi, sem ég mun fjalla um á eftir, taldi starfshópur um vindorku mikilvægt að reynt yrði að hlífa óröskuðum svæðum og hálendi landsins fyrir uppbyggingu vindorkumannvirkja. Í stöðuskýrslu starfshópsins, Vindorka – valkostur og greining, kom fram að forgangsraða þurfi þeim gæðum sem tengjast óspilltri náttúru landsins umfram þau gæði að hafa slík mannvirki ekki í sjónmáli að einhverju leyti í daglegu lífi okkar. Í tillögu til þingsályktunar um stefnu í vindorku er hugtakið raskað svæði skilgreint með þeim hætti að átt sé við land sem raskað hefur verið af mannavöldum, eins og t.d. vegna iðnaðar, hafna, virkjana, línulagna, tengivirkja, þjóðvega eða landbúnaðar, eða svæði þar sem sömu sjónarmið geta átt við.

Í þriðja lagi að virkjunarkosturinn sé ekki talinn rýra um of mikilvæga verndarhagsmuni svæða sem njóta verndar að lögum né annarra nærliggjandi svæða sem njóta sérstöðu á landsvísu vegna náttúru- og menningarminja eða atvinnustarfsemi sem tengist slíkum svæðum. Þó að lagt sé til að fleiri svæði landsins séu undanskilin hagnýtingu vindorku samkvæmt frumvarpi þessu en gildir um aðra virkjunarkosti er hins vegar ljóst að einnig þarf að gæta varúðar í næsta nágrenni eða í grennd við slík svæði eða önnur svæði þar sem náttúra er einstök eða óviðjafnanleg. Sama gildir þegar um að ræða ferðamannastaði sem eru einstakir á landsvísu vegna náttúrufars eða útivistar. Virkjunarkostur getur t.d. verið staðsettur alveg á mörkum slíkra viðkvæmra svæða þótt virkjunarsvæðið sjálft njóti ekki sérstakrar verndar á grundvelli laga. Gera verður ráð fyrir að ákveðið hagsmunamat þurfi að fara fram í slíkum tilfellum. Virkjunarkostur getur rýrt verulega verndarhagsmuni og verndargildi verndaðs svæðis, eins og t.d. þjóðgarðs, vegna sjónrænna og hljóðrænna áhrifa ef hann liggur alveg að slíkum mörkum.

Í fjórða og síðasta lagi að virkjunarkostur sé ekki á svæði þar sem mikið er um villta fugla sem metnir eru í hættu eða verulegri hættu á válistum eða fuglategundir með hátt eða mjög hátt verndargildi. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur um talsvert skeið staðið fyrir gerð válista fyrir fugla þar sem stuðst er við viðmið Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN). Alls eru um 120 svæði á Íslandi sem teljast vera alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði og er haldið utan um skráningu þeirra hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Vegna varfærnissjónarmiða hafa slík svæði oft verið skilgreind frekar rúmt við kortlagningu svæðanna af hálfu stofnunarinnar. Mikilvægt er að við mat á skilyrðum frumvarpsins sé byggt á nýjustu upplýsingum eða rannsóknum um svæðið sem um ræðir. Hér getur skipt máli að svæðið hafi verið rannsakað með tilliti til þessara þátta, t.d. að tilstuðlan þeirra aðila sem hyggjast reisa umrædda virkjun, og hægt sé að leggja mat á þessa þætti út frá slíkum rannsóknum. Skilyrði greinarinnar kunna að vera uppfyllt, jafnvel þó að virkjunarstaðurinn sé innan svæðis sem formlega er skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði ef nýjustu upplýsingar og rannsóknir benda til þess að staðsetning virkjunarkostsins sé ekki líkleg til að valda óásættanlegum skaða á slíkum fuglategundum. Gera má ráð fyrir að hér þurfi verkefnisstjórn að leita til Náttúrufræðistofnunar Íslands þegar þessi skilyrði eru metin.

Þau skilyrði sem ég hef talið upp eru skilyrði til að virkjunarkostirnir geti komið til álita við þá skilvirku málsmeðferð sem gert er ráð fyrir í þágu orkuskipta og kolefnishlutleysis. Ég ítreka hins vegar það sem áður hefur komið fram að aðrir virkjunarkostir í vindorku munu ávallt geta farið í hina hefðbundnu meðferð sem gert er ráð fyrir rammaáætlun.

Í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins er fjallað um málsmeðferðina. Telji verkefnisstjórn að tiltekinn virkjunarkostur uppfylli skilyrði hinnar sérstöku málsmeðferðar er gert ráð fyrir að verkefnisstjórn birti opinberlega drög að slíkri niðurstöðu sinni og veiti almenningi, félagasamtökum, sveitarfélögum og öðrum hagaðilum átta vikna frest til að koma að athugasemdum við slíka niðurstöðu. Að loknum fresti skilar verkefnisstjórn ráðherra niðurstöðum sínum ásamt framkomnum athugasemdum.

Í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins er fjallað um málsmeðferðina eftir að verkefnisstjórn hefur skilað ráðherra niðurstöðu sinni. Þar er kveðið á um að ef ráðherra telur, eftir skoðun á niðurstöðu verkefnisstjórnar og framkomnum athugasemdum, að virkjunarkosturinn uppfylli skilyrði greinarinnar geti hann tekið ákvörðun um að virkjunarkosturinn sæti ekki frekari meðferð innan verndar- og orkunýtingaráætlunar. Það hefur þá í för með sér að virkjunarkosti sé vísað til ákvörðunar hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi og öðrum stjórnvöldum sem þá taka afstöðu til veitingar leyfis sem tengist orkuvinnslu. Það þarf hins vegar auðvitað að gerast að undangengnu mati á umhverfisáhrifum og að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Þetta er í raun ákveðin meginbreyting. Ef virkjunarkostur uppfyllir skilyrði greinarinnar og er í samræmi við stefnu stjórnvalda, sem Alþingi á vonandi eftir að samþykkja, þá er það annarra stjórnvalda að taka ákvörðun um framhald málsins. Slíkir virkjunarkostir þurfa ekki að sæta sérstakri meðferð á Alþingi heldur þurfa að uppfylla önnur skilyrði laga, svo sem ef sveitarfélag ákveður að setja virkjunarkost inn á skipulag sitt. Ráðherrann þarf þó ekki að fallast á tillögu verkefnisstjórnar um að virkjunarkostur uppfylli framangreind skilyrði. Það geta t.d. komið fram veigamiklar upplýsingar um mál í opinberu umsagnarferli sem ráðherra telur skipta máli varðandi framgang málsins. Í 4. mgr. 5. gr. er því kveðið á um að fallist ráðherra ekki á að virkjunarkosturinn uppfylli skilyrði skv. 1. mgr. fer um málsmeðferð hans eins og um aðra virkjunarkosti í verndar- og orkunýtingaráætlun samkvæmt lögunum. Það þýðir með öðrum orðum að virkjunarkosturinn sætir þá hinni hefðbundnu meðferð innan rammaáætlunar og eftirfarandi umfjöllunar á Alþingi eins og gildir um aðra virkjunarkosti áætlunarinnar.

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir eru lagðar til umtalsverðar breytingar á lagaumgjörð mála er varða skoðun og mat á virkjunarkostum í vindorku í samanburði við aðra virkjunarkosti samkvæmt lögum um rammaáætlun. Ástæða þessara breytingar felst í því séreðli vindorkunnar að hún er hvorki staðbundin né eins takmörkuð gæði og hinir hefðbundnu virkjunarkostir eins og ég hef þegar farið yfir. Með frumvarpinu er annars vegar hert á skilyrðum varðandi hvaða svæði eigi að verja fyrir uppbyggingu vindorkumannvirkja en á móti kemur að slakað er á hefðbundnum málsmeðferðarreglum rammaáætlunar vegna þeirra virkjunarkosta sem uppfylla þau skilyrði sem ég hef farið yfir.

Ljóst er að það málefni sem hér er til umfjöllunar er engan veginn óumdeilt. Margir telja að málefni vindorkunnar eigi að vera utan rammaáætlunar og alfarið ákveðin samkvæmt almennum reglum. Aðrir telja miklu skipta að málefni vindorku séu áfram innan rammaáætlunar og eigi að hlíta nákvæmlega sömu reglum og málsmeðferð og hinir hefðbundnari orkukostir. Sú leið sem er lögð til í frumvarpi þessu byggir á að farin sé ákveðin millileið með hliðsjón af hinu sérstaka eðli vindorkunnar. Í henni felst að reynt er að slá skjaldborg um mikilvægustu svæði landsins með tilliti til náttúrunnar en reynt á móti að auðvelda slíka uppbyggingu á öðrum svæðum sem þykja henta betur slíkri uppbyggingu. Í þessari leið felst einnig að sveitarfélögum landsins er fengið mun stærra hlutverk við ákvörðun um mögulega uppbyggingu slíkra mannvirkja innan marka þeirra en gert er ráð fyrir í gildandi lögum um rammaáætlun, sem mælir fyrir um skyldu sveitarfélaga til að gera ráð fyrir orkukostum í nýtingarflokk í skipulagi sínu.

Eins og rakið er í frumvarpinu þá liggur hins vegar fyrir að ekki er komin mikil reynsla á uppbyggingu virkjunarkosta í vindorku hér á landi þótt slík uppbygging hafi átt sér stað um áratugaskeið erlendis. Í frumvarpinu er því lagt til að verði frumvarpið að lögum verði þau endurskoðuð innan fjögurra ára með tilliti til reynslu af framkvæmd þeirra. Mikilvægt er að við söfnum saman og nýtum okkur þá reynslu sem mun liggja fyrir í tengslum við frekari uppbyggingu þessa orkukosts hérlendis og hún verði nýtt innan þessa tiltölulega skamma tíma til að endurmeta og hugsanlega bæta þá aðferðafræði sem við viljum hafa við mat á virkjunarkostum í vindorku.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið hér meginefni þessa frumvarps. Ég legg til að því verði að lokinni 1. umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.