154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[18:35]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki viss um að hæstv. ráðherra hafi skilið það sem ég var að segja hérna eða hann hefur ákveðið að misskilja það. Ég var bara að spyrja hér út í ferlið í því hvernig við tökum ákvörðun um sérstaka málsmeðferð sem lýst er í lið 4.2 í tillögu að stefnu. Ég var ekki að spyrja um það hvort hún væri góð eða slæm eða neitt slíkt en ráðherrann ákvað sem sagt að misskilja það. Það er hans mál. Það skiptir máli hvernig þetta er gert og það skiptir máli hvaða hlutverk verkefnisstjórn hefur og hvaða skilyrði á að uppfylla. Það er bara þannig, það þarf að skýra það. En það verður þá kannski skýrt út í meðferð nefndarinnar.

Hitt er, og ég tek algerlega undir með ráðherranum, að auðvitað þarf að afla meiri orku og nýta vindorkuna, eins og ég tók fram í mínu fyrra andsvari. Það sem ég skil hins vegar ekki, og þætti vænt um að fá að heyra, er hvernig og hvar í lagaumgjörðinni ráðherrann sér færi á því að þegar búið er að afla orkunnar sé öruggt að hún fari til þeirra verkefna sem skipta mestu út af loftslagsmálum, að hún fari í orkuskiptin og að hún fari á rétta staði. Ég sé ekki í fljótu bragði að við getum gert það. Það er örugglega hægt að koma því þannig fyrir í eigendastefnu opinberra fyrirtækja t.d. eða með öðrum ákvörðunum stjórnvalda en það skiptir auðvitað mestu máli að við vitum að sú græna orka sem hér er aflað og þarf að afla, m.a. vegna orkuskipta, fari í þau en ekki einhverjar aðrar atvinnugreinar eða starfsemi. Þarna finnst mér að það vanti tenginguna. Ég hef enn ekki heyrt hvernig stjórnvöld ætla að sjá til þess að þetta verði svona. Ég held að við séum öll mjög meðvituð um að það þarf að sjá til þess að græna orkan fari til orkuskiptanna.