154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[18:37]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég fagna því að hv. þingmaður styður viðleitni til að afla meiri grænnar orku, til þess er leikurinn gerður. Staðan er núna sú, af því að sumir eru mjög mikið að ræða þetta með þessum hætti, að við erum í öfugum orkuskiptum. Við stefnum að kolefnishlutleysi og að taka út jarðefnaeldsneyti en við erum að fara í öfuga átt vegna þess að okkur vantar græna orku. Nú er það þannig að verksmiðjur sem notuðu rafmagn eru að nota olíu. Ef við skoðum loftslagsbókhaldið milli ára, hvar erum við að auka losun? Það er annars vegar í verksmiðjunum sem nú eru að nota jarðefnaeldsneyti en notuðu áður rafmagn. Svo erum við líka með svæði eins og Vestfirði þar sem næststærsta orkuverið er jarðefnaeldsneytisorkuver sem notaði fyrir nokkrum árum 200.000 lítra af dísilolíu og mun á þessu ári nota 3,6 milljónir lítra. Og okkur vantar græna orku.

Það er svo langt síðan við hættum á þeirri vegferð að einhver sem ætlaði að stofna verksmiðju hafi sagt: Ég er búinn að ná samningum við norska olíuframleiðendur eða sala til að knýja hana áfram. Kolefnishlutleysi næst með því að við séum að nota græna orku í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Nú er vandinn sá — við höfum ekki hafið síðustu atvinnustarfsemina hér á Íslandi, vona ég, ef svo væri þá værum við í hræðilegum málum — að okkur vantar græna orku í slíka starfsemi. Ég nefndi hér sérstaklega rafmyntagröft af því að það er erfitt að halda því fram að það kannski nái einhverjum af þessum markmiðum. En hins vegar er almenna reglan sú að til að ná kolefnishlutleysi verðum við að nota græna orku í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti í þeirri atvinnustarfsemi.