154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[18:40]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Niðurstaða starfshóps hæstv. ráðherra var að vindorka ætti áfram að heyra undir rammaáætlun. Það er auðvitað það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var að vísa til hér áðan og virðist ekki standa til að breyta því samkvæmt þessu frumvarpi. Hins vegar er verið að opna á sérstaka málsmeðferð að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og við í Samfylkingunni erum ekkert á móti því að vera með sérstaka málsmeðferð fram hjá rammaáætlun ef það verður þá til þess að flýta uppbyggingu sem rík sátt er um og þar sem ekki er verið að ganga mjög freklega á mikla verndarhagsmuni, og þá einmitt helst að uppbyggingin sé á þegar röskuðum svæðum.

Það sem ég staldra kannski helst við í þessu frumvarpi er þetta skilyrði um að sérstaka málsmeðferðin verði að vera í þágu orkuskipta og kolefnishlutleysis og að matið á þessu skuli fara fram af hálfu verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Hingað til hefur verkefnisstjórn rammaáætlunar ekki verið að meta virkjunarkosti og faghóparnir ekki verið að meta virkjunarkosti út frá því í hvað orkan fer. Ég vil kannski gera aðra tilraun til þess að spyrja — af því að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir innti ráðherra eftir því áðan, en fékk bara föðurlegar umvandanir um að ráðast þyrfti í aukna orkuöflun, sem ég tek undir — út í þau tæki sem verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur, þegar kemur að þessu sérstaka mati, til að tryggja að þessir tilteknu vindorkukostir, sem eru teknir fram hjá rammaáætlun, feli í sér orkuframleiðslu sem verði endilega nýtt til orkuskipta. Og hvers vegna er farin þessi leið að vera með þetta sérstaka skilyrði?