154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[18:42]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég á svolítið erfitt með að átta mig á hvar Samfylkingin stendur í þessu. Ég held að það skipti máli að Samfylkingin tali skýrt í þessu máli því að hún hefur verið tví- og margsaga, bæði í orðum og gjörðum, á þessu kjörtímabili. Ég veit ekki hvað er flókið við það, virðulegi forseti, að kanna það, þegar viðkomandi aðili sækir um, að viðkomandi framkvæmd ýti undir orkuskipti og kolefnishlutleysi. Ég nefndi rafmyntagröft hérna sem er dæmi sem ekki myndi uppfylla það. Nú er það þannig að við erum í öfugum orkuskiptum, okkur vantar græna orku. Við erum ekki á þeirri vegferð sem við ætlum að vera á á öllum sviðum, að við séum að taka jarðefnaeldsneyti út og nota græna orku í staðinn. Þetta er staðan sem er uppi og eftirspurnin eftir grænni orku mun aukast mjög mikið. Þess vegna erum við, ásamt þeim löndum sem við berum okkur saman við, lönd innan EES og ég tala nú ekki um Evrópusambandið, að leita leiða til að ýta undir græna orku. Ég trúi því ekki að hv. þingmanni þyki það eitthvað snúið eða erfitt.

Það sem eftir stendur eftir þessa fyrirspurn er að það er mjög erfitt að átta sig á hvar Samfylkingin stendur í þessum málum. Ég held að kjósendur eigi rétt á að fá að vita það, og ég mun fylgjast mjög vel með því, bæði í atkvæðagreiðslum og í þessum umræðum, hvar Samfylkingin stendur. Ég þekki sögu hennar í grænorkumálum en er að vonast til þess að þingmenn í þessum þingflokki séu (Forseti hringir.) að fara í rétta átt en ég er ekki viss eftir þessa athugasemd frá hv. þingmanni.