154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[18:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Við Íslendingar höfum lengi prísað okkur sæla að þrátt fyrir að við búum í erfiðri náttúru þá veitir hún okkur um leið mikið magn hreinnar grænnar orku, ólíkt svo mörgum öðrum þjóðum sem þurfa fyrst og fremst að reiða sig á jarðefnaeldsneyti eða neyðarúrræði eins og vindmyllur til að verða sér úti um rafmagn. En nú allt í einu hefur ríkisstjórn Íslands fengið mikinn áhuga á því að reisa hér vindmyllur uppi um allar koppagrundir, nokkuð sem við fram að þessu gátum verið fegin að þurfa ekki að horfa upp á. En í ljósi þess og vegna þess að ekki hefur verið ráðist í að nýta aðra orkukosti, hagkvæmari traustari orkukosti, þá er þessu varpað fram hér til að sýna, að því er virðist, að menn séu að gera eitthvað í málunum. Hvers vegna, eins og rætt var hérna áðan, halda menn ekki bara áfram að framleiða hreina græna orku með þeim hagkvæmu og áreiðanlegu orkugjöfum sem við höfum? Hvers vegna að færa umræðuna, dreifa málum jafnvel á dreif með þessu vindmyllutali? Líklega er það vegna þess hversu ímyndarstjórnmálin eru orðin allsráðandi og þar eru vindmyllur eitt helsta táknið. Meira að segja þeir sem kalla sig mikla umhverfisverndarsinna, en neita þó alfarið að framleiða hreina græna orku með t.d. vatnsafli eða jarðvarma í auknum mæli, líta á vindmyllur sem grænar. Þetta nýta ýmsir sér, t.d. olíufélögin. Menn hafa eflaust komandi til útlanda séð strax á flugvellinum og svo á skiltum víða auglýsingar frá olíufélögunum með myndum af vindmyllum, svona eiginlega til að grænþvo ímynd sína og þá telja menn best að gera það með vindmyllum. Og ríkisstjórn Íslands virðist hafa komist að sömu niðurstöðu og ætlar að grænþvo sig með vindmyllutali þó að það væri auðvitað miklu betra, bæði fyrir samfélagið, náttúruna og framleiðsluna hér á landi, að halda áfram að nýta þá góðu, traustu grænu orkukosti sem við höfum fyrir.

En hversu grænar eru þessar vindmyllur í raun og veru? Þetta eru gríðarlega stór mannvirki. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því hversu stórar þessar nútímavindmyllur eru, þær sem nú eru reistar til að reyna að ná hagkvæmni; hæglega þreföld Hallgrímskirkja á hæð þegar spaðinn er í efstu stöðu og hver spaði fyrir sig hæglega hærri en Hallgrímskirkja. Allt þetta þarf að flytja auðvitað en fyrst að framleiða. Það þarf gríðarlegt magn af stáli í eina vindmyllu. Það stál er yfirleitt framleitt í Kína, framleitt þar með kolabruna og auðvitað eru kol notuð líka í efnahvörfin sem þarf við stálframleiðsluna. Svo er þetta stál flutt langar leiðir, um hálfan heiminn og meira, með mengandi flutningaskipum. Spaðarnir eru framleiddir úr gerviefnum og eru óendurvinnanlegir. Það er stórkostlegt vandamál víða hvað eigi að gera við úrelda spaða en þessar vindmyllur endast að jafnaði í um 20 ár áður en þarf að endurnýja og þá vita menn ekkert hvað á að gera við þessa gríðarlegu gerviefnaspaða. Í túrbínurnar sjálfar þarf mikið magn af fágætum málmum og gröftur eftir þeim í Kína og Afríku hefur sums staðar lagt heilu héruðin í eyði vegna mengunarinnar sem fylgir þeirri vinnslu.

Hafa menn hugleitt það hvað þarf til að svona gríðarlega stór vindmylla haldist standandi og geti tekið á sig það álag sem fylgir svo miklum vindi? Það þarf að reisa gífurlega stóran sökkul fyrir hverja vindmyllu fyrir sig, undirstöðurnar úr steinsteypu og mjög rækilega járnbentri steinsteypu. Hvort tveggja losar gróðurhúsalofttegundir eins og allt annað í framleiðslunni og flutningi og raunar uppsetningu líka og svo þarf að tengja þetta allt saman. Vindmyllurnar þurfa gífurlega mikið pláss. Það er rétt að hafa það í huga að til þess að þær nýtist almennilega þá þarf að vera töluvert pláss á milli þeirra og vindmyllugarðarnir þess vegna oft mjög víðfeðmir. Svo þarf að tengja hverja vindmyllu fyrir sig við aðrar, eðli máls samkvæmt, með raflögnum og með vegum auðvitað til að geta komið þessu upp um allar koppagrundir og reist þetta þar með stórvirkum vinnuvélum, heldur betur. Svoleiðis að þetta hefur mjög veruleg áhrif á loftslagið og sumir vilja meina, þegar allt dæmið er reiknað, að þetta spari ekkert, sé í rauninni ekki grænn kostur. Í öllu falli er ljóst að þetta hefur mikil áhrif á loftslagið og mjög veruleg áhrif á náttúruna.

Þetta er auðvitað ekki fögur sjón, þessar vindmyllur, alveg forljótt mannvirki ef mannvirki skyldi kalla því að raunar líta þær út eins og þær séu reistar af geimverum eða einhverjum sem eru ekki alveg mannlegir því að þær eru ekki mannlegar í útliti. Fyrir vikið skerðast umhverfisgæði á mjög stórum svæðum þar sem ráðist er í byggingu þessara garða.

Hér er sérstaklega tekið fram í þessari þingsályktunartillögu að það eigi fyrst og fremst að reisa þessar vindmyllur á svæðum þar sem hefur orðið eitthvert rask, þ.e. þar sem maðurinn hefur áður ráðist í einhverjar framkvæmdir, svo sem eins og landbúnað eða vegi. Með öðrum orðum á að reisa þetta á svæðum þar sem fólk býr eða ferðast um fremur en að fela annars staðar þar sem enginn sér. Það á nefnilega ekki að reisa vindmyllur á hálendinu samkvæmt þessu, nema jú — og þá koma undantekningarnar fyrir öll skilyrðin — nema þetta sé sérstaklega réttlætanlegt í nafni baráttu við loftslagsbreytingar, þannig að það verður svo sem auðvelt þegar þarf að koma einhverju verkefni í gegn sem er stjórnvöldum þóknanlegt að vísa í þá undanþágu. En höfum hugfast að allir vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru á svæðum sem hefur verið raskað vegna þess að þangað liggja vegir. Þar eru oft hús, þjónusta og þar býr fólk. Þetta eru í mörgum tilvikum fallegustu staðir landsins sem féllu þarna undir af því að þeir njóta ekki verndar í samræmi við eitthvert þeirra ákvæða sem átti að veita vernd að einhverju leyti nema þegar loftslagsþörfin er sérstaklega rík. Því má ætla að Íslendingar þurfi að hafa þetta fyrir sjónum og hlusta á þetta, hávaðann í þessu er gríðarlegur líka, vegna þess að menn treysta sér ekki í að halda einfaldlega áfram að framleiða hina stöðugu og hagkvæmu orku eins og við höfum gert hér um áratugaskeið.

Þetta er með öðrum orðum til þess fallið, að því er virðist, fyrst og fremst að skapa einhverja ímynd, liður í því, en einnig kann að vera að það sé stjórnvöldum þóknanlegt að einhverjir ráðist í svona framkvæmd sem lið í einhverju stærra orkuplani en það plan væri alltaf betra með hefðbundnu orkunni sem við eigum nóg af.

Þessi ríkisstjórn kynnti þrjú megináherslumál þegar hún tók til starfa, sem voru hver? Útlendingamál, orkumál og fjármál ríkisins. Í dag eða í morgun sáum við kynningu á fjármálaáætlun og þar er bara gert ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri og nýjum gjöldum á fólk. Í útlendingamálunum treysta menn sér ekki einu sinni til að segja að þeir ætli að klára það sem var búið að leggja fram, það á einhvern veginn eftir að ræða það áfram milli stjórnarflokkanna. Og hvernig tekur þessi stjórn á orkumálunum? Jú, með ímyndarvinnu á borð við vindmyllur.

Það kann að vera að einhvers staðar sé tilefni til að setja upp vindmyllur á Íslandi við sérstakar aðstæður en ég myndi nú þó frekar hvetja ríkisstjórnina til að líta á skynsamlegu nálgunina og leggja kraft í það að setja af stað orkuvinnslu, hefðbundna íslenska orkuvinnslu, nýta jarðvarmann og vatnsaflið og gera það hratt og vel fremur en að láta alla umræðuna næstu árin snúast um vindmyllur sem kannski koma einhvern tímann en vonandi ekki of margar, því að ef Ísland verður þakið vindmyllum allan hringinn þá erum við búin að missa einhver mestu gæði sem við Íslendingar eigum: Fallega landið okkar.