154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:01]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann berst gegn vindmyllum, það fer ekki fram hjá neinum. Það er mjög áhugavert að heyra hvernig hv. þingmaður talar um vindmyllur því að bæði eru þær svo stórar að þær sjást alls staðar að og svo vill hann hafa þær þar sem enginn sér þær. Ég veit ekki alveg hvaða staður á landinu það gæti orðið. En staðan er bara þessi, af því að hv. þingmaður talar hér eins og það sé ekkert mál að afla orku, en við þurfum mjög mikla græna orku, að þó svo að hv. þingmaður hafi sem forsætisráðherra lofað því í París, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 17. júní, að við yrðum best í loftslagsmálum þá var mjög lítið ef nokkuð gert í því að afla grænnar orku á þeim tíma. Það er vandinn. Við höfum gert mjög lítið í 15 ár í raforkunni og í 20 ár í hitaveitunni.

Það fyrsta sem ég gerði sem ráðherra var að leggja fram rammaáætlun sem var samþykkt, aflaukningarfrumvarp sem var samþykkt og sömuleiðis orkusparnaðarfrumvarp og okkur veitir ekkert af öllu þessu. Og hv. þingmaður verður að kynna sér hve miklu þeir orkukostir sem eru mögulegir skila, því að við þurfum á öllu að halda. Okkur vantar græna orku. Ég held að hv. þingmaður ætti að styðja viðleitni til að afla grænnar orku. Það er hv. þingmaður ekki að gera, hann gerði það ekki sem forsætisráðherra og gerir það ekki núna sem formaður Miðflokksins og hv. þingmaður. Það er fréttin: Miðflokkurinn styður ekki græna orkuöflun.