154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki verið að vernda margt samkvæmt þessu. Það er verið að opna meira og minna á þetta út um allt nema kannski síst á hálendinu og á sérstaklega vernduðum stöðum, en þá má komast fram hjá því með því að vísa til loftslagsmálanna sem má nota til að réttlæta alls konar óskynsamlegar ákvarðanir.

Hvað varðar síendurteknar dylgjur hæstv. ráðherra um andstöðu mína við orkuframleiðslu og annað slíkt þá er margoft búið að svara því. En hann hjakkar í þessu aftur og aftur af því að hann hefur ekkert annað, hann hefur ekki svörin við spurningunum. Það þarf ekki mig til að fara um heiminn og útskýra fyrir fólki að það fylgja því ýmsir gallar að reiða sig á vindmyllur, fyrir náttúruna ekki hvað síst og hugsanlega fyrir loftslagið. Hæstv. orkumálaráðherra ætti að hafa kynnt sér málið, ætti að hafa lesið fræðigreinar um þetta, þær skýrslur sem hafa komið út. Og af því hann vill senda mig í trúboð til annarra landa þá þurfa þau lönd sem hæstv. ráðherra nefndi mig ekki til að útskýra fyrir sér þann vanda sem hefur fylgt þessu víða. Menn gera þetta hins vegar af illri nauðsyn, þeir hafa ekki þá valkosti sem við höfum. En íbúarnir á svæðunum í kringum þessar framkvæmdir eru oft á tíðum, í öllum löndunum sem hæstv. ráðherra nefndi, afar ósáttir við áhrifin af þessu og hafa andmælt því af hörku og vísað í, eins og ég geri nú, að huga þurfi að heildarmyndinni. Ekki eigi bara að líta á vindmyllur sem eitthvert ímyndarmál heldur þurfi að líta á heildaráhrifin af framkvæmdinni. Það skortir algerlega hjá þessari ríkisstjórn að líta á heildaráhrif þeirra áforma sem hún boðar.