154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hræddastur um að það verði eitthvert antiklímax ef ég tek þátt í andsvörum eftir allt stuðið sem hefur verið á milli hv. þingmanns og hæstv. ráðherra, en ég ætla að sjá hvort við getum ekki gert eitthvað gott úr þessu. Fyrst langar mig að taka undir þessa mikilvægu áminningu frá hæstv. ráðherra, þ.e. að þakka hv. þingmanni fyrir að hafa staðið í stafni ríkisstjórnar þegar Ísland gekk inn í Parísarsáttmálann. Það var mikilvægt skref og sýndi að við værum tilbúin til að vera þjóð á meðal þjóða þegar kemur að skuldbindingum okkar á alþjóðavísu. Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann — ég held að hann þekki innyflin í flokki hæstv. ráðherra aðeins betur en sá sem hér stendur. Þessi matskenndu skilyrði sem þarf fyrir því að vindorkukostur hljóti flýtimeðferð eru dálítið áhugaverð og gagnrýni á það hversu matskennd þau eru kemur úr öllum áttum, bæði frá náttúruverndarsinnum og fólki sem við myndum kannski oftar flokka sem virkjunarsinna. Samtök iðnaðarins benda t.d. á að það sé vafi um það hvort almenn tilvísun til orkuskipta og kolefnishlutleysis sé nægjanleg til að vera grundvöllur ákvarðana innan stjórnsýslunnar.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er tveimur línum neðar í umsögn Samtaka iðnaðarins, í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem þau skora á ráðuneytið að taka til skoðunar hvort þessi tillaga að miðstýringu, um að geta forgangsraðað ákveðnum kostum fram hjá rammaáætlun, fái staðist. Og mér finnst þetta orð dálítið skemmtilegt, miðstýring er nefnilega eitthvað sem ég hélt að hæstv. ráðherra væri einhvern veginn í erfðaefninu á móti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort við sjáum hér kannski skína í breytingar á hátterni ráðherrans hvað varðar inngrip (Forseti hringir.) ríkisins þegar kemur að því að stýra þróun raforkumarkaðarins hér á landi.