154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef miklu frekar áhyggjur af því hve þetta er allt opið og óljóst eins og hv. þingmaður kom inn á í byrjun. Það er ekkert mjög langt síðan hæstv. núverandi fjármálaráðherra sagði í umræðum um þessi vindmyllumál að hann sæi fyrir sér að það mætti leysa þetta með því að heimila að reistar yrðu vindmyllur á sex eða sjö stöðum á landinu, minnir mig að hann hafi nefnt; það var alla vega undir tíu stöðum, á sex eða átta stöðum á landinu. Þá var hugmyndin sú þar á bæ, og að því er virtist hjá ríkisstjórninni, þó að það sé ekkert víst að hann hafi borið það undir hæstv. loftslagsráðherra, að það ætti að hafa þetta afmarkað og hamið. Hættan við þetta mál núna, hversu opið það er, er sú að þetta verði einhvers konar gullgraftaræði, að þetta spretti upp út um allt eins og vídeóleigurnar gerðu á níunda áratugnum og úreldist svo hugsanlega eftir einhver ár eða áratugi. Ég hefði viljað sjá meiri sýn á það hvernig menn ímynda sér að þetta þróist. Það geta sannarlega verið til staðir á landinu sem réttlæta nýtingu á þessu neyðarúrræði til orkuframleiðslu þrátt fyrir allt það rask sem því fylgir, losun gróðurhúsalofttegunda í Kína og allt þetta sem ég rakti áðan. Ég er ekki að segja að við eigum að banna vindmyllur á Íslandi en það sem verið er að opna á hér veldur mér áhyggjum.