154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að auðvitað er of djúpt í árinni tekið að segja að bókstaflega ekkert hafi gerst. Það hefur verið unnið í því að gera virkjanir hagkvæmari og auka framleiðsluna. En í mörg undanfarin ár hefði miklu meira þurft að gerast. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um það að þó að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að vera í ríkisstjórn í meira en áratug þá verði honum ekki einum kennt um þetta allt. Ég hugsa að hæstv. ráðherra og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi kannski á fyrra kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar — nú er ég bara að gefa mér það — lent í vandræðum með Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í orkumálum. En þau eru engu nær um að ná saman í því efni þrátt fyrir að hafa, að sögn hæstv. forsætisráðherra, stofnað þessa ríkisstjórn ekki hvað síst á grundvelli orkumála. Það var greinilega ekkert búið að ræða það því að á sama tíma talar formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, í þveröfuga átt við hæstv. forsætisráðherra í þessum málum og hugsanlega lendir hæstv. orkumálaráðherra einhvern veginn þar á milli.

En hins vegar hef ég líka bent á að ég hef haft áhyggjur af því að hæstv. ráðherra sé einfaldlega orðinn of vinstri grænn sjálfur í umhverfismálunum sérstaklega og í nálgun sinni á loftslags- og umhverfismál. Ég hef í mörgum ræðum gagnrýnt áherslur eða nálgun VG í þeim málaflokki sem er samt gríðarlega mikilvægur málaflokkur. Og ég hefði viljað sjá, þegar um er að ræða ráðherra Sjálfstæðisflokksins, að hann hefði svolítið aðra nálgun en VG.