154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég svo mikill tossi að ég skrifaði ekki hjá mér virkjanirnar sem Landsvirkjun hefur tekið í gagnið eða stækkað á síðustu 15 árum en ég hefði haldið að hæstv. ráðherra vissi af þeim. Hann talar eins og hér hafi verið algjör kyrrstaða, kannski skiljum við bara orðið kyrrstöðu ólíkt. Ef kyrrstaða þýðir að eitthvað sé að gerast, sem er staðreyndin, þá er það dálítið skrýtin notkun hæstv. ráðherra á því orði. Ég myndi ekki kallað það kyrrstöðu þegar búið er að stækka virkjanir og reisa nýjar. En gott og vel, þetta er bara ólíkur málskilningur.

Það var svo sem kannski ekki margt annað sem þurfti að bregðast við. Auðvitað fagna ég því að ráðherra sé búinn að opna fyrir að Orkustofnun geti miðað gjaldtöku við umfang verkefna. Það hefur náttúrlega staðið stofnuninni fyrir þrifum að það er fræðilega séð hægt að drekkja henni í verkefnum og þegar fjármunir hrökkva ekki til verður það bara til þess að verkefnin eru ekki unnin. Það kom mér raunar á óvart þegar ég heyrði starfsmannatölurnar þegar við vorum að fjalla um stofnanabreytingar ráðuneytisins inni í umhverfis- og samgöngunefnd hér fyrr í vetur, að þarna væru leyfisveitingar og utanumhald um eiginlega alla auðlindanýtingu landsins afgreiddar af örstofnun, sem Orkustofnun er. Staðan er þá náttúrlega sú að hvert verkefni er á herðum eins starfsmanns og hver starfsmaður er með mörg stór verkefni sem í flestum ríkjum væru kannski heilu deildirnar. Og jú, ég ætla bara að halda áfram (Forseti hringir.) að segja að sú staða segir náttúrlega til um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar; orkumálum er ekki forgangsraðað (Forseti hringir.) í raun og veru ef stofnanaumhverfið er ekki byggt upp til þess að taka á verkefninu.