154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:38]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að hv. þingmaður ætli að styðja hér sameiningarfrumvörp, sem ég hef lagt mikla áherslu á að verði kláruð og er mjög langt síðan komu inn í þingið, vegna þess að hv. þingmaður er að benda á það að stofnanir séu of litlar. Síðan eru verkefni sem eru í rauninni samkynja, þau eru í fleiri en einni stofnun, og þess vegna erum við að fara í þessar sameiningar sem hv. þingmaður þekkir mjög vel og eru núna inni í nefnd, þannig að ég fagna bara stuðningi hv. þingmanns við það.

Varðandi kyrrstöðuna og að það sé aukning um 25 MW á sama tíma og það er alveg ljóst að eftirspurn eftir grænni orku, ekki síst vegna loftslagsmála, er að aukast, þá höfum við farið úr því að vera þjóð sem telur 300.000 í 400.000, ferðamenn úr því að vera 300.000 í það að vera 2,3 milljónir. Því sér það hver maður að hér er afskaplega lítið búið að gerast og allar tölur sýna fram á það, hvort sem það er raforkuframleiðsla eða hitaveitan. Ég nefndi ekki hér að tveir þriðju hitaveitna sjá fram á vanda í sínum rekstri vegna þess að það vantar heitt vatn. Þetta er, held ég, fyrsta jarðhitaátakið á þessari öld sem hefur verið farið í, nú í tíð þessarar ríkisstjórnar.

En af því að hv. þingmaður heldur því fram að lítið hafi gerst í orkumálum þá hefur ramminn verið kláraður í fyrsta skipti núna í níu ár. Aflaukningarfrumvarpið er farið í gegn sem gerir það að verkum að menn eru núna að auka aflið í virkjunum sem nemur hundruðum megavatta. Við erum með varmadælufrumvarpið, við erum með sameiningarnar, við erum með þetta frumvarp sem liggur hér fyrir og fleiri sem eru á leiðinni og ég fæ vonandi að mæla fyrir. Hv. þingmaður mun ekki finna neinn tíma á undanförnum áratugum þar sem jafn mikið hefur gerst á jafn skömmum tíma, enda veitir ekki af ef við ætlum að ná okkar loftslagsmarkmiðum. Við erum að gera nákvæmlega það sama og þær þjóðir sem við berum okkur saman við, (Forseti hringir.) ekki síst í Evrópu en auðvitað á það við um miklu fleiri staði.