154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að mér fyrirgefist þótt ég fylgi ráðherranum hér út í þannig séð óskyld mál varðandi sameiningarfrumvörpin sem þegar hafa farið í gegnum 1. umræðu og eru til umfjöllunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Þar er okkur vandi á höndum vegna þess að um er að ræða stofnanir sem almennt hafa verið vanfjármagnaðar, undirmannaðar, og samlegðaráhrifin af sameiningunni væntanlega ofmetin. Þannig að ég hef áhyggjur af því að ný Umhverfis- og orkustofnun yrði bara fjölmennari en alveg jafn illa bær til að sinna verkefnunum eins og hún vildi gera, eins og stofnanirnar eru í dag. Þetta er vegna þess að hæstv. ráðherra leggur fram frumvörpin án þess að gera ráð fyrir því að einhverjar aukningar verði á fjárheimildum aðrar en rétt, hvað var það, eitt stöðugildi í hálft ár til að sinna innleiðingarfasanum. Þetta held ég að sé gríðarleg bjartsýni hjá ráðherranum að gangi upp og muni skila bættri þjónustu.

Kannski ég ætti nefna vegna þess að hæstv. ráðherra klykkir út með einum af uppáhaldsfrösunum sínum um að það veiti ekki af að drífa í að virkja ef við ætlum að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum — þá kemur bara staðlaða svarið: Það er ekkert í regluverkinu sem tryggir það að 1 MW sem virkjað er upp á nýtt rati í einhver loftslagsmál. Þar strandar enn á því að ríkisstjórnin slái einhvern lagaramma utan um það, um forgangsröðun raforku.