154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:43]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Ég held að hv. þingmaður, og jafnvel fleiri, geri sér grein fyrir því að við deilum nú um margt sýn í þessum málum sem er skemmtilegt því að við sitjum báðir í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem mun fá þetta verkefni til sín ef tillögu hæstv. ráðherra verður fylgt. Ég held að þetta frumvarp eigi sannarlega heima þar miðað við þá verkaskiptingu sem höfum haft í þinginu.

Eitt held ég hins vegar að við getum öll verið sammála um í þessum sal: Það er og verður endalaus eftirspurn eftir raforku. En ég vil þó taka undir það sem fram hefur komið í máli ýmissa annarra hv. þingmanna um að það hafi jú ýmislegt verið gert. Til að mynda hefur að frumkvæði hæstv. ráðherra verið lagt í breytingar á sömu löggjöf til að reyna að auka möguleikana á því að ná fram meiri aflaukningu út úr þeim virkjunum sem þegar eru og fara þá betur með þá auðlind sem þar rennur í gegn en jafnframt betri nýtingu á þeim svæðum sem þegar hefur verið raskað til orkuöflunar. Og það er nú vel og er bara eitt gott dæmi um hvað hæstv. ráðherra hefur lagt sig fram um að reyna að tryggja hér aukna raforku. Ég er þó þeirrar skoðunar að við munum aldrei geta mætt allri eftirspurninni þótt við getum mögulega verið sammála um það hér í salnum að það verður endalaus eftirspurn eftir raforku.

En af því að ég sagði hér í upphafi, virðulegur forseti, að ég og hv. þingmaður deilum svipaðri sýn þá held ég að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að 5. gr. frumvarpsins verður áhugaverð í umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann, því að hann vakti athygli okkar á breytingartillögu sem fram er komin um mikilvægi þess að færa stærðarviðmiðunin niður í 1 MW úr 10, hvort hann sjái fyrir sér að það sé farsælt að gera það í þessari ferð akkúrat núna þegar frumvarpið er undir eða bíða (Forseti hringir.) heildarendurskoðunar laganna eins og hæstv. ráðherra boðaði.