154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:48]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni andsvarið. Það kann vel að vera að það sé ákveðið sjónarmið hvað varðar megavattafjöldann að festa það ekki í sessi í formi 10 MW. En hins vegar liggja fyrir niðurstöður og álit þess efnis að eins og staðan er í dag, þar sem ekki er skýrt kveðið á um þennan orkukost í rammalöggjöfinni, þá liggur engu að síður fyrir að vindorka á sannarlega heima undir lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og þar hefur viðmiðið verið eins og það stendur í lögunum, 10 MW.

Ég tel hins vegar mig vita að ég og hv. þingmaður höfum sömu áhyggjurnar þegar kemur að viðmiðunum og hv. þingmanni er væntanlega fullkunnugt um það að ég er einn af flutningsmönnum frumvarps um nákvæmlega þetta sama mál, þ.e. að færa stærðarviðmiðin úr þessum 10 MW viðmiðum, sem er jú séríslenskt viðmið, talandi um að við setjum okkur einhverjar sérstakrar viðmiðanir en erum ekki að horfa til innleiðinganna eins og þær koma beint frá Evrópu. Við þurfum sannarlega að takast á við þessa áskorun en ég hefði að svo komnu máli talið farsælla að við gerðum það í heildarsamhengi hlutanna sem að hluta til er nú farið inn í greinargerð með þessari breytingartillögu hv. þingmanns við þetta frumvarp hér. Ég tel mig vita það að ég og hv. þingmaður deilum sömu — eða áhyggjurnar eru runnar undan sömu rifjum, þ.e. að fenginni reynslu þessa viðmiðs í lögum, þessa séríslenska viðmiðs í lögum, þá hefur víða, og hafa bæði Skipulagsstofnun og fleiri aðilar bent á það, verið gengið ansi freklega í það að slefa sem næst upp í 10 MW viðmiðið þar sem ekki er horft á umhverfisáhrif hlutaðeigandi virkjunarkosts.

Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir andsvarið en ítreka að ég held að við séum nokkuð á svipaðri línu í þessum málum.