154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Já, vindmyllur úti um allt, þær spretta upp eins og gorkúlur, það hefur verið sagt hér fyrr í þessari umræðu. Það er einmitt ekki skrýtið að hæstv. ráðherra skuli koma með frumvarp um að hægt verði að setja upp vindmyllur hér og þar um landið, þó svo að hann sleppi miðhálendinu og öðrum náttúruminjum, enda hefur formaður flokks hæstv. ráðherra sagt: Virkja, virkja og virkja, að það sé eina leiðin til að halda áfram. Það er hins vegar athyglisvert að aðrir aðilar sem hafa þekkingu á þessum málum eins og t.d. orkumálastjóri, sem er reyndar í stuttu fríi, sagði í viðtali við Heimildina að stærsta áhættan við nýja framleiðslu, fleiri virkjanir, í samhengi við orkuskiptin, væri að orkan væri ekki að nýtast inn í þau verkefni sem stjórnvöld hefðu sett á oddinn. Með öðrum orðum: Þó svo að við leyfum fullt af vindorkuverum úti um allt, sem eru þá græn orka, er ekkert víst að hún fari neitt í orkuskiptin. Það er miklu líklegra að það fari í einhverjar verksmiðjur eða einhvern iðnað sem hæstv. ráðherra eða flokkur hans telur að sé lausnin við því að viðhalda hagvexti á Íslandi. Einn hv. þingmaður úr flokki ráðherra orðaði það einmitt svo vel, þegar viðkomandi var spurður í útvarpsviðtali hvers vegna þyrfti að virkja meira og hvers vegna við þyrftum meiri orku; jú, það var til að reisa fleiri verksmiðjur og fleiri fyrirtæki til að skapa atvinnu. En hv. þingmaður vildi reyndar ekki fá neina útlendinga inn í landið til að vinna við þessa vinnu. Ég veit ekki alveg af hverju það að skapa fullt af atvinnu var svona mikilvægt.

Það er líka athyglisvert að fylgjast með því að á meðan hæstv. ráðherra leggur fram áætlun þar sem allt gengur út á að virkja og virkja þá er formaður samstarfsflokks hæstv. ráðherra, hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, formaður Vinstri grænna, með miklar yfirlýsingar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum í gær. Hann segir m.a.: Orðræðan í samfélaginu um orkumál hefur tekið breytingum á undanförnum misserum. Hún gengur sífellt meira út á að það eina sem þurfi til að ná árangri í loftslagsmálum sé aukin orkuöflun í miklum mæli og helst án tafar. Þessu er ég ósammála enda um mikla einföldun að ræða. Loftslagsmál ná til mun fleiri þátta en orkuöflunar auk þess sem taka þarf ríkt tillit til bæði faglegra sjónarmiða og náttúruverndar við alla orkuöflun. Það er dálítið áhugavert að lesa þetta á sama tíma og ráðherra í sömu ríkisstjórn er að leggja fram frumvarp um að virkja, virkja og virkja. Það er greinilegt að þetta mál snertir ekki flokk hæstv. ráðherra það mikið því að þau taka ekki einu sinni þátt í umræðum hér um þessi mál.