154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[20:03]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir gott andsvar. Það er ánægjulegt að heyra að verið sé að fjárfesta meira í tengivirkjunum. Ég heyrði ekki alveg hvort tengja eigi Austfirði við Kárahnjúka en ég ætla rétt að vona að það sé líka inni. (Gripið fram í.) Þar er verið að keyra allt á olíu í dag (Gripið fram í.) í staðinn fyrir rafmagnið. Ég ætla rétt að vona að Austfirðingar fái að vera fyrsta flokks íbúar þessa lands og það sé sett í forgang að gera það. Það sem ég og hæstv. ráðherra erum kannski ekki alveg sammála um er þessi orkuþörf. Til orkuskipta þurfum við græna orku og vonandi getum við fengið hana með því að nýta orkuna betur. En þær áætlanir sem hæstv. ráðherra benti á og ég er ekki sammála eru um alla aðra notkun á þessari orku sem er verið að fara að virkja, þ.e. að búa til einhverjar verksmiðjur sem munu engan veginn standa undir sér vegna þess að flutningskostnaður mun verða of mikill og rafmagnskostnaður of mikill til að búa til þetta græna eldsneyti og annað. Þar erum við ekki sammála.

Það hefði verið gaman að heyra meira um hvernig samstarfsflokkur ráðherrans sér þetta en hljóð og mynd virðast ekki fara saman innan ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þessum málum. Ég lýsi eftir þeirri umræðu.