154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[20:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég hljóp nú hérna yfir úr nýbyggingunni áðan þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var hér í pontu og var að tala niður vindorkuna og ég hugsaði: Þetta getur ekki verið satt, að einhver sé hér enn í dag á móti jafn mikilvægum virkjunarkosti og vindorkan er. Ég ætla að fá að blanda mér örlítið í þessa umræðu og byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með þetta frumvarp, tímabært og mikilvægt að það komi hérna fram. En þegar ég hlustaði á þessa ræðu sem ég var að vísa í leið mér eins og þegar ég mætti í fyrsta skiptið upp á Hálendismiðstöðina Hrauneyjar og horfði út og sá stóru möstrin með rafmagnslínunum og hugsaði: Þetta er svo ljótt, hvað er verið að koma með svona hérna upp á hálendið? Svo labbaði ég auðvitað inn á hótelið sem er upphitað og lýst með rafmagni og setti símann minn í samband og pantaði mér hamborgara og hafði það náðugt. Ég held nefnilega stundum að við gleymum því að við þurfum á þessari orku að halda. Hún kemur ekki bara úr innstungunni, það þarf að flytja hana um landið og það þarf að virkja til að framleiða orkuna.

Á hverri einustu ráðstefnu eða fundi sem ég hef komið á eftir að ég settist á þing og fór að skipta mér af þessum málum, og ég hef mikinn áhuga á umhverfis- og loftslagsmálum svo og málefnum norðurslóða, þá er verið að fjalla um orku og mikilvægi orkuskiptanna. Það væri algerlega fáránlegt ef við Íslendingar ætluðum ekki líka að nýta vindorkuna. Við erum að sjálfsögðu með vatnsaflið og jarðvarmann en auðvitað eigum við að fylla upp í þetta mikilvæga mynstur okkar með vindorkunni líka.

Nú er ég nýkomin frá Færeyjum þar sem Norðurlandaráð fundaði og þeir buðu okkur m.a. í heimsókn til orkufyrirtækis síns og ég fór að spyrja út í þessar vindmyllur vegna þess að ein af fyrstu ferðum mínum erlendis eftir ég settist á þing var einmitt til Færeyja og þá sá maður svona eina og eina vindmyllu uppi á fjalli og ég man að þeir voru ekkert rosalega bjartsýnir á þetta enda voru þeir að fá langmest af sinni orku bara með því að brenna olíu. Í dag eru þeir komnir í 60%, þ.e. 60% af orkunotkun þeirra er umhverfisvæn orka. Það eru aðallega vindmyllur, þeir eru með lítið af vatnsafli þannig að þetta er að skila raunverulegum árangri. Fólki fannst áður kannski ljótt að sjá vindmyllur út af því að mögulega heftir það útsýni eða gerir hlutina öðruvísi en ég held að í nútímaumhverfi þá eigum við bara að líta á þær öðrum augum. Ég geri það alla vega. Ef ég sé vindmyllu þá segi ég bara: Vá, hvað þetta er fallegt. Það er verið að búa til umhverfisvæna orku. Og þetta er meira að segja virkjunarkostur sem er þannig að það er hægt að taka svo niður vindmylluna, hann er algjörlega afturkræfur sem gildir ekki um alla virkjunarkosti.

Ég bara hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að afgreiða þetta mál hratt og vel. Auðvitað er ég alveg sammála því, ég er ekkert að tala fyrir því að það eigi að vera hérna vindmylla á hverju horni, ekki frekar en við eigum að virkja hverja einustu lækjarsprænu. En ef við tökum loftslagsmálin alvarlega þá eigum við að nýta skynsamlega virkjunarkosti og vindurinn, sem við eigum bara nokkuð mikið af hér á þessu landi, hlýtur að vera einn af þeim.

Mig langar líka að bæta því við að Færeyingar hafa verið að ná smá árangri varðandi sjávarföllin líka, það er komin örlítil prósenta þar í þeirra mixtúru. Ég veit að það er kannski ekki komið á stóran skala enn þá en gefur góðar vonir og væntingar og ég vona svo innilega að við séum líka að fylgjast með þeirri þróun því að við ættum líka að eiga næga krafta í sjávarföllum okkar þegar að því kemur að hægt verður að virkja þau. En ég óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd góðs gengis og hvet til þess að þetta mál verði samþykkt hið fyrsta svo við getum farið að virkja vindinn okkar.