154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

899. mál
[20:14]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi. Tillaga þessi var unnin af þeim sérstaka starfshópi sem ég skipaði sumarið 2022 til að gera tillögur og sem drög að lagafrumvarpi til að ná þeim markmiðum sem stjórnarsáttmálinn kveður á um varðandi vindorku. Eins og fram kom í máli mínu þegar ég mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun hér á undan, þá skipuðu starfshópinn þau Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður sem var formaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismaður, og Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra. Eins og fram hefur komið þá lagði hópurinn mikla vinnu í þetta verkefni og var tillaga þessi hluti af afurðum hópsins ásamt frumvarpi til breytinga á lögum um rammaáætlun.

Eins og fram kemur í skýrslu starfshópsins frá því í apríl 2023 var ljóst að hópurinn var einhuga um að setja þyrfti almenna opinbera stefnu um hagnýtingu vindorku, óháð því hvernig leyst yrði úr meginálitamálum við leyfisveitingar og hagnýtingu vindorku í lögum og reglum. Slík stefna þyrfti að vera til staðar, hvort sem vindorkunni yrði fundinn staður utan eða innan verndar- og orkunýtingaráætlunar. Vindorkan og eðli hennar, sem m.a. felst í mikilli hæð og sýnileika mannvirkja, er svo frábrugðin öðrum virkjunarkostum að starfshópurinn taldi nauðsynlegt að skýr opinber stefnumörkun lægi fyrir um hagnýtingu hennar út frá ýmsum mikilvægum þáttum, eins og t.d. náttúru, þ.m.t. friðlýstum svæðum, óbyggðum víðernum, miðhálendi Íslands, ferðamennsku og útivist, nálægð við byggð o.fl.

Með því að hafa skýra opinbera stefnu um hagnýtingu vindorku sem samþykkt væri á Alþingi væri stuðlað að því að allir sem vinna að verkefnum á því sviði, hvort sem það eru opinberir aðilar eða einkaaðilar, geti unnið markvissar að undirbúningi þeirra verkefna. Í samræmi við þá tillögu starfshópsins um að málefni vindorku verði áfram innan verndar- og orkunýtingaráætlunar, þá liggur jafnframt fyrir að stefnan mun nýtast verkefnisstjórn rammaáætlunar við mat sitt á virkjunarkostum í vindorku innan áætlunarinnar.

Ljóst er að verkefnisstjórn hefur þótt skorta á að fyrir hendi væru frekari leiðbeiningar um það hvernig meta eigi vindorkukosti innan áætlunarinnar. Stefna þessi og frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, verða að skoðast samhliða. Frumvarp til breytinga á lögum nr. 48/2011 byggist á því að samhliða verði umrædd stefna tekin til meðferðar og er gildistaka frumvarpsins háð því að slík stefna verði samþykkt.

Stefnan skiptist í fjóra meginþætti ásamt talsverðum fjölda undirþátta:

1. Meginforsendur uppbyggingar virkjunarkosta í vindorku.

Í þessum fyrsta þætti stefnunnar er fjallað um helstu markmið stjórnvalda og lagt til að uppbygging vindorku, bæði á hafi og á landi og í sem mestri sátt við náttúru og líffræðilega fjölbreytni, verði ein af grunnstoðum sjálfbærrar orkuöflunar landsins. Hagnýting vindorku verði mikilvægur liður í því að ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti og kolefnishlutleysi. Þar er einnig að finna rökstuðning fyrir því að lagt er til að vindorka verði innan rammaáætlunar ásamt því að lögð er til sérstök málsmeðferð í þágu kolefnishlutleysis og orkuskipta til að flýta nauðsynlegum orkuskiptum.

Í öðru lagi er í stefnunni að finna skilgreiningu á þeim svæðum landsins þar sem lagt er til að uppbygging vindorku verði óheimil. Um er að ræða sömu svæðin og ég hef þegar farið yfir með tillögu til breytinga á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og vísa til þess sem þar kom fram.

Í þriðja lagi er fjallað um náttúru, náttúruminjar, líffræðileg fjölbreytni og menningarminjar þar sem ítrekað er að ávallt skuli gæta að neikvæðum áhrifum þessarar starfsemi á þessa þætti.

Í fjórða lagi er fjallað um orkuvinnslu og orkukerfið. Þar er að finna áréttingu um að nauðsyn þess að raforkuvinnsla með vindorku verði liður í því að efla framboð á raforku þannig að unnt verði að uppfylla framtíðarþörf landsins fyrir raforku. Þar er einnig vikið að því að mikilvægt sé að heildarhlutfall vindorkuvera, staðsetning vinnslunnar og staðsetning notkunar á raforku sé þannig að það stuðli að hagkvæmni orkukerfisins og flutningskerfisins. Einnig er vikið að þáttum eins og orkuöryggi og afhendingaröryggi á raforku auk svæða þar sem skortur er á raforku sem unnin er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Í fimmta lagi er vikið að vindorku og samfélagi. Þar kemur m.a. fram að mikilvægt sé að ákvörðun um uppbyggingu vindorku eigi sér stað með aðild nærsamfélagsins til að unnt sé að ná sem breiðastri sátt um hana og endanleg ákvörðun hvort vindorkuver rísi innan sveitarfélaga sé í höndum þeirra.

Í sjötta lagi er fjallað um efnahagsleg áhrif af hagnýtingu vindorku. Þar kemur m.a. fram að stefna skuli að því að sú verðmætasköpun sem hagnýting hennar hefur í för með sér skili sér til samfélagsins alls með sanngjarnri og eðlilegri opinberri gjaldtöku sem tryggi því beina og sýnilega hlutdeild í afkomu starfseminnar. Vegna áhrifa virkjunar vindorku á nærumhverfið verði tryggt að nærsamfélagið njóti sérstaks ávinnings af starfseminni umfram hefðbundnari virkjunarkosti.

2. Aðrar mikilvægar forsendur fyrir uppbyggingu virkjunarkosta í vindorku.

Í þessum þætti er fjallað um ýmsar aðrar forsendur sem starfshópnum þótti mikilvægt að unnið yrði eftir við framtíðaruppbyggingu vindorku hér á landi. Í þessum þætti stefnunnar er jafnframt bent á ýmsa þætti sem mikilvægt er að stjórnvöld vinni að á næstunni ef vindorka á að ná fótfestu hérlendis.

Í fyrsta lagi er bent á að fyrir hendi þarf að vera samhæfð opinber stjórnsýsla í málaflokknum. Mikilvægt er að stofnanir sem koma að málinu og fara með stjórnsýslu á þessu sviði hafi styrk og faglega getu til að sinna verkefninu. Í þessu sambandi er lagt til að stuðlað verði að aukinni samvinnu og samráði þeirra opinberu aðila sem fara með málefni vindorku og stjórnsýslu á því sviði, hvort sem er á sviði skipulagsmála, umhverfismála, orkumála eða málefna flutningskerfisins, með það að markmiði að samræma, einfalda og flýta málsmeðferð og eftirliti vegna verkefna á þessu sviði án þess þó að það komi niður á gæðum við meðferð mála og ákvarðanatöku. Áhersla verður jafnframt lögð á að auðvelda og einfalda mismunandi stjórnsýslustofnunum að vinna samhliða að verkefnum er lúta að einstökum virkjunarkostum.

Í öðru lagi er mikilvægt að bestu framkvæmd og tækni sé ávallt fylgt við umræddar framkvæmdir. Með hliðsjón af því að um nýja tækni er að ræða hérlendis er nauðsynlegt á ýmsum sviðum að setja, lagfæra eða uppfæra það regluverk sem þarf að gilda um verkefnið. Hér má t.d. nefna reglur og viðmið um nauðsynlega fjarlægð vindorkumannvirkja frá íbúabyggð, t.d. á grundvelli hljóðs, ljóss, skuggaflökts og hugsanlegs ískasts frá mannvirkjum, til að tryggja öryggi, hollustuhætti og heilsu. Einnig skiptir máli að tryggja í lögum eða reglum að frá uppsetningu til niðurrifs mannvirkjanna við lok starfsemi verði tryggt eins og unnt er að unnið verði eftir bestu framkvæmd og tækni á sviði endurnýtingu auðlinda, hollustuhátta og mengunarvarna.

3. Meginsjónarmið um staðsetningu vindorkuvera.

Í þessum þætti tillögunnar er fjallað um ýmsa mikilvæga þætti varðandi staðsetningu og stærð vindorkumannvirkja. Í fyrsta lagi er að finna umfjöllun um röskuð svæði og óröskuð. Þar kemur m.a. fram að hálendið og náttúra Íslands bjóði upp á mikil lífsgæði í formi fjölbreyttra náttúru, sérstaks landslags, óraskaðra svæða og útivistar. Til að ná markmiðum um að vernda eins og kostur er óröskuð svæði verði stefnt að því að uppbygging virkjunarmannvirkja eigi sér fyrst og fremst stað þar sem landi hefur þegar verið raskað, þó að á því geti verið undantekningar til að tryggja raforkuöryggi eða vegna annarra mikilvægra samfélagslegra aðstæðna.

Í öðru lagi er fjallað um hljóðræn og sjónræn áhrif vindorkumannvirkja. Þar er áhersla lögð á að við mat og skoðun á virkjunarkostum í vindorku verði ávallt reynt að velja starfseminni haganlega staðsetningu í landslagi sem hentar hverju sinni til að draga úr neikvæðum hljóðrænum og sjónrænum áhrifum en ekki sé einungis horft til þess að hámarka nýtingarhlutfall virkjunarkostsins. Einnig er mikilvægt að við mat á hljóðrænum og sjónrænum áhrifum virkjunarkostsins verði horft til mikilvægis þeirra hagsmuna sem kunni að verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna staðsetningarinnar. Hér má t.d. nefna nálægð við þjóðgarða og önnur friðlýst svæði, svæði þar sem náttúra er einstök eða óviðjafnanleg, ferðamannastaði sem eru einstakir á landsvísu vegna náttúrufars eða útivistar og aðra staði með mikið verndargildi eða mikla verndarþörf í íslensku eða alþjóðlegu samhengi.

Í þriðja lagi er fjallað um stærð vindorkuvera. Ekki er í raun lögð til sérstök stefna um stærð vindorkuvera en bent á að umhverfisáhrif þurfi að vera í beinu samhengi við stærð mannvirkjanna og að stærri vindorkuver kunni að hafa minni umhverfisáhrif á framleidda orkueiningu en minni vindorkuver.

Í fjórða lagi er fjallað um vindorku á hafi. Þar kemur fram að hagnýting vindorku á hafi sé heppileg leið til að ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti og kolefnishlutleysi til lengri tíma litið. Ríkið þurfi þó að hafa frumkvæði að því að hefja sem fyrst þær rannsóknir og þann undirbúning sem nauðsynlegur er til að móta heildarstefnu og löggjöf um nýtingu vindorku í hafi.

4. Málsmeðferð virkjunarkosta í vindorku.

Í þessum þætti stefnunnar er rakin sú málsmeðferð sem ég hef þegar farið yfir vegna tillögu til breytinga á lögum um rammaáætlun og sé því ekki ástæðu til að endurtaka það.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu sem ég hef þegar mælt fyrir og í stefnu þessari er að finna ýmsar breytingar á umgjörð þeirra mála sem snúa að hagnýtingu vindorku hér á landi. Von mín er að verði frumvarpið að lögum og stefna þessi samþykkt muni það leiða til þess að umgjörð vindorkumála hérlendis verði mun skýrari og einfaldari. Skýr stefna og lagaumgjörð á þessu sviði mun gagnast umhverfinu og náttúrunni sem og þeim sem hyggja á raforkuframleiðslu með vindmyllum. Hér skiptir meginmáli að fyrir hendi sé fyrirsjáanleiki og skýrar leikreglur. Hvort tveggja eru nauðsynlegir þættir til að við getum aukið raforkuframleiðslu okkar í þágu loftslagsmarkmiða og kolefnishlutleysis.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa stjórnartillögu. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.