154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

899. mál
[20:25]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður kemur hér að mjög mikilvægu máli. Partur af vinnunni, og sú skýrsla liggur fyrir, var að skoða sérstaklega reynslu annarra þjóða sem eru komnar miklu lengra og hafa gert þetta í áratugi, varðandi vindorkuna. Þetta var skoðað út frá mörgum forsendum, leyfisveitingum og öðru slíku. Það liggur fyrir að í gegnum Evrópska efnahagssvæðið erum við með ákveðið fyrirkomulag sem miðar að því að ná sem bestri nýtingu orkunnar. Flutningskerfið er eitt en síðan þurfa viðskiptin með raforkuna að vera með þeim hætti að það sé framboð á jöfnunarorku þannig að sú raforka sem vindorkan býr til nýtist sem allra best. Það er sérstakur hópur, undir forystu Guðrúnar Sævarsdóttur, sem leiddi vinnuna um orkustefnu á sínum tíma, sem mun skila af sér niðurstöðu á næstu vikum og mánuðum. Þetta er þáttur sem við verðum að líta til. Það er ekki nóg að byggja vindorkuver, þau verða náttúrlega að nýtast til að sú orka sem þar verður til nýtist okkur sem best.

Jöfnunarorkan — í öðrum löndum er þetta stundum gas og jarðefnaeldsneyti. En við höfum vatnsorkuna sem við verðum að nýta sem jöfnunarorku til að fá sem besta nýtingu út úr kerfinu. Það þýðir að við þurfum þá að framleiða minna.