154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

899. mál
[20:30]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Það er alveg rétt að auðvitað er meginlandið með miklu stærra kerfi en við. Það breytir því ekki að við undirgengumst — það er samræmt út af Evrópska efnahagssvæðinu, þess vegna erum við í grunninn með þetta regluverk sem er samræmt. Munurinn liggur hins vegar, eins og hv. þingmaður vísar til, í því að við erum ekki tengd við þennan markað og ég er ekki fylgjandi því að svo verði, þó að við gætum gert það með sæstreng. Við erum hins vegar með svæði eins og Norður-Noreg sem er með ekkert ósvipað fyrirkomulag, getum við sagt, það er að mörgu leyti líkt því íslenska.

Það er líka einn þáttur sem hjálpar okkur í þessu — það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það væri vont ef við þyrftum að fara í gríðarlegan kostnað út af því að vindorkuver yrðu sett upp þar sem mjög dýrt yrði að tengja við þau. Það kostar fjármagn fyrir þá aðila sem vilja tengja sig inn á kerfið að gera það. Það er alveg ástæða fyrir því, eins og hv. þingmaður vísar til, að þetta er sett inn í stjórnarsáttmála. Það er ekki þannig að einhverjir geti bara sett upp virkjun þar sem þeim dettur í hug og sagt við hið opinbera: Tengið þið mig núna og ég ætla ekki að borga neitt. Það virkar ekki þannig. Það gerir það að verkum að orkukostir, hvort sem það er vindorka, vatnsafl eða jarðvarmi, eru mismunandi hagkvæmir vegna þeirra laga og reglna sem gilda nú þegar.

Þetta er auðvitað eitthvað sem er mjög mikilvægt að skoða og við erum meðvituð um það. Þess vegna er svolítið síðan við settum þessa vinnu af stað. Hún er hins vegar yfirgripsmikil og flókin og það eru þrír einstaklingar, ásamt starfsmönnum ráðuneytisins, sem eru að vinna í þessu. Ég bind miklar vonir við þá vinnu en eins og hv. þingmaður vísar til þá verðum við líka að líta til þessa þegar við erum að byggja kerfið okkar upp.