154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

899. mál
[20:32]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna en um leið taka undir það sjónarmið sem hefur að einhverju leyti verið reifað í samtölum að stefnumörkun sem þessi, sem við ræðum hér í formi þingsályktunartillögu, er mikilvæg. Það er mikilvægt að við vitum hvert við ætlum að fara og séum búin að reyna að átta okkur á því fyrir hvaða horn við þurfum að sjá þegar kemur að þessum málum. Og af hverju segi ég það, virðulegur forseti? Það er vegna þess að um margt er vindorkuöflun hérlendis óplægður akur. Sannarlega höfum við séð einhverjar tilraunir í formi einstakra vindmylla, rellna, um landið og við vitum af áhuganum á að reisa hér einstakar rellur og/eða stærðarinnar vindorkuver. Það hvernig við berum okkur að við þetta allt saman þarf því eðli málsins samkvæmt að lúta stefnu og það er gott að við komum okkur saman um það áður en hugmyndirnar verða stærri og meiri og það án þess að hafa eitthvert haldreipi eins og í stefnu sem þessari.

Hafandi sagt það þá höfum við séð aukinn áhuga og aukinn vöxt í þessa veru, þ.e. vilja til þess að reyna að hagnýta vindinn, á undanförnum árum og sumum hefur nú alveg þótt nóg um allan þennan áhuga vítt og breitt um landið. En gott og vel, látum það liggja á milli hluta. Öll vitum við að það getur enginn hreyft sig í þessum málum nema, eins og staðan er í dag, að hugmyndirnar séu teknar fyrir á vettvangi rammaáætlunar og er það vel. Þar eru, eins og var rifjað upp í fyrri umræðu, einungis tvö vindorkuver í nýtingarflokki, Blöndulundur og Búrfellslundur, og heimild til þess af hálfu Alþingis að skoða orkuöflun þessara tveggja kosta. Umræðan hefur líka þroskast og henni hefur fylgt ýmislegt sem við verðum að átta okkur á og skilja og að einhverju leyti er tekið á því, og að mörgu leyti vil ég segja frekar, í þessari ágætu þingsályktunartillögu, þeirri ágætu vinnu sem var unnin af þeim aðilum sem hæstv. ráðherra fór hér yfir í sinni framsögu. En ég held að það sé með þetta eins og svo margt annað að við þurfum bæði að melta í samhengi umræðunnar þær hugmyndir sem dregnar hafa verið upp og þá mynd sem hefur verið dregin upp.

Í þessu samhengi langar mig að minna á það sem hefur stundum verið minnst á hér í þingsalnum, að hv. umhverfis- og samgöngunefnd, sem fær vonandi þetta mál til umfjöllunar og umræðu samhliða frumvarpi hæstv. ráðherra um breytingar á lögum um svokallaða rammaáætlun, fór sérstaka ferð til Skotlands til þess m.a. að kynna sér vindorkuuppbyggingu. Skotar, af því að ég hjó eftir því í upptalningu hæstv. ráðherra hér áðan að hann nefndi ekki Skotland sérstaklega. (Gripið fram í.) Nú, gerði hann það? Hann nefndi hins vegar mjög margt í Evrópu. En ég veit að hæstv. ráðherra og öðrum er fullkunnugt um að þar hefur ekki bara umræðan þroskast heldur framkvæmdir tekið á sig ýmsar myndir. Það var afar forvitnilegt fyrir okkur í umhverfis- og samgöngunefnd að kynnast þessu, heyra ofan í kollega okkar á skoska þinginu og fleiri aðila sem við hittum um hvar vítin eru til að varast. Eitt af því sem ég hjó eftir til að mynda í orðum einhverra kollega okkar á skoska þinginu — ég spurði bæði þar og svo seinna þegar hluti þeirra kom í heimsókn til Íslands og við endurguldum þeirra gestrisni í okkar garð — var að einhver þeirra svöruðu spurningum mínum þess efnis: Ef þið væruð á sama stað og við Íslendingar erum í dag hvernig mynduð þið ber ykkur að? — þá var fyrsta viðbragðið það að við ættum að horfa til þess að reisa þetta frekar úti fyrir landi, á sjó, hvar Skotar hafa meiri háttar áform um að gera, í stað þess að leggja land undir þetta. Svo voru ýmis sjónarmið því fylgjandi, sér í lagi hvað beri að varast í samhengi þeirra aðila sem annars sækjast eftir því að byggja upp og eignarhalds á landi og því sem skilið er eftir í samfélögunum og hvernig farið er með það fjármagn, af því að eðli málsins samkvæmt er krafa um það.

Eitt sem kemur fram og ég vil fagna sérstaklega, og það er margt mjög gott í þessari þingsályktunartillögu, er að það er ávarpað í þessu samhengi öllu saman að í upphafi skuli endinn skoða, þ.e. að ekki er í boði að ætla sér bara að byggja en ganga svo ekki frá eftir sig þegar líftímanum lýkur. Því fagna ég og held að það sé til mikilla bóta og er þetta eitt af þeim atriðum sem voru sérstaklega tilgreind í heimsókn okkar í Skotlandi.

En ég held að við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þurfum samt í ljósi þeirrar stefnu sem við erum hér að ræða að skoða betur hvort hægt sé að hnykkja á áherslum sem lúta að mengunaráhrifum þegar reistra myllna, þ.e. þegar búið er að reisa þær með tilliti til fleiri atriða heldur en hljóð- og sjónmengunar, hér var nefnt skuggaflökt áðan. Allt saman atriði sem einmitt umræðan sem er að þroskast í samfélaginu hefur dregið fram. Nefni ég þar til að mynda að undir mjög sterkum ytri umhverfisaðstæðum, svo sem í sterkum vindi eða nálægt sjó, er eyðingin á þeim vindmylluspöðum sem núna eru í notkun mjög dramatísk, svo ég leyfi mér að nota það orð, virðulegi forseti, sem í einhverjum tilfellum, eins og rannsóknir sýna, veldur aukinni örplastmengun sem skapar líka bara ákveðin önnur vandræði sem við þurfum að eiga við. Þannig að ég held að við í hv. nefnd þurfum að horfa til þessara atriða sérstaklega þegar við förum yfir þessi áhersluatriði sem hér eru.

Annað sem ég vil draga fram er að ég fagna því, og held ég hafi komið inn á það í andsvari fyrr í umræðu, sem út úr þessari ágætu vinnu kom hjá þeim aðilum sem hæstv. ráðherra fór yfir áðan og því samtali sem sá starfshópur átti vítt og breitt um landið; niðurstaðan um að uppbygging vindorkuvera ætti heima innan rammaáætlunar. Það tel ég vel, enda er mikilvægt að við tryggjum fagleg ferli og horfum til náttúruverndarsjónarmiða við könnun á fýsileika þess hvort ráðast eigi í nýtingu á tiltekinni auðlind. Svo ég fagna því.

Annað atriði sem ég vil draga fram og hegg eftir er að það er sérstaklega kveðið á um hér í kaflanum 1.5, Vindorka og samfélag, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um uppbyggingu virkjunarkosta í vindorku eigi sér stað með virkri og lýðræðislegri aðild og aðkomu nærsamfélagsins til að unnt sé að ná sem breiðastri sátt um hana út frá hagsmunum íbúa á nærliggjandi svæðum.“

Við höfum nefnilega orðið þess áskynja í þessari umræðu sem við höfum fylgst með hér á undanförnum misserum að víða skapa hugmyndir um akkúrat uppbyggingu til orkunýtingar verulega skiptar skoðanir og stundum reiði í nærsamfélögunum. Það gleður mig því að sjá þetta ávarpað með ákveðnum hætti í þessari tillögu að stefnu, vegna þess að þetta er atriði sem við getum einfaldlega ekki horft fram hjá. Það gerum við heldur ekki á vettvangi stjórnarsáttmála þeirra flokka sem hér starfa saman því að það er einmitt komið inn á þetta mikilvæga atriði sáttarinnar sem þarf að vera um uppbyggingu og nýtingu hinna mismunandi auðlinda í samfélaginu. Við þekkjum of margar sögur í íslensku samhengi þar sem umræða um orkuframkvæmdir hefur klofið heilu samfélögin, jafnvel heilu fjölskyldurnar, og þetta getur ekki verið ásættanleg niðurstaða þegar við erum að reyna að komast að niðurstöðu um það hvernig við ætlum að nýta sameiginlegar auðlindir okkar.

Að öðru. Ég vildi draga sérstaklega fram atriði sem ég sé að hefur ratað inn í tillöguna og er í kafla sem hér er númeraður 2.1, Samhæfð opinber stjórnsýsla, þar sem kveðið er á um að það verði nýttar heimildir og svigrúm í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem við vorum að fjalla um hugmyndir að breytingum á áðan, til að taka áætlunina til meðferðar á Alþingi oftar en á fjögurra ára fresti séu tilteknir virkjunarkostir tilbúnir til slíkrar meðferðar. Ég hygg að þetta sé eitt af þeim atriðum sem hæstv. ráðherra hefur dregið fram í sinni umræðu um að flýta málsmeðferð. Ég ætla ekki hér að fara að munnhöggvast við nokkurn mann um það hvort það hafi gengið hægt eða hratt í einu eða neinu en tel þó að við höfum verið að gera bara ágætlega í ýmissi orkuöflun á undanförnum árum, þótt vissulega þyki sumum ekki nóg um vegna þess að allir vilja jú meira fá. En varðandi þetta atriði þá held ég að við þurfum að taka til sérstakrar skoðunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að komi til þess að þessi möguleiki verði nýttur verði horft til þess hvernig þessar mismunandi hugmyndir sem gjarnan eru kallaðar virkjunarkostir, hvert vægi þeirra er í röðun þess sem fyrir er í áætluninni.

Annars hlakka ég bara til að takast á við það, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að fá til okkar umsagnaraðila og umsagnir um akkúrat þetta mikilvæga mál, enda hefur umræðan verið þess eðlis í samfélaginu að undanförnu.