154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

899. mál
[20:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrst fyrir að fara dálítið heildstætt yfir sviðið og draga fram álitaefni sem við þurfum að skoða í nefndarvinnunni. Ég held að það skipti máli að við vöndum til verka vegna þess að alltaf þegar við snertum á þessum málaflokki þá erum við nálægt dálítið trámatískum stað í þjóðarsálinni. Deilur um það hvar eigi að setja niður virkjanir í náttúru Íslands hafa gengið mjög nærri mörgum samfélögum, mjög mörgum einstaklingum og það er skiljanleg ástæða þess að oft bregst fólk illa við öllum hugmyndum. Það er fyrsta viðbragð af því að það er svo brennt af reynslunni. Það er gott að við berum virðingu fyrir þessari upplifun fólks í gegnum áratugina og reynum þess vegna að vanda til verka.

Ég var nú búinn að biðja um andsvar áður en hv. þingmaður vék að ferð umhverfis- og samgöngunefndar til Skotlands en mig langaði einmitt að ræða þá ferð eða þá beinu reynslu sem við fengum af vindorkuverum vegna þess að kúrekastemmningin, sem við tölum stundum um í kringum viðskiptahugmyndir fólks hér á landi, er oft mjög óraunveruleikatengd. Fólk lætur eins og það geti bara elt einhverja línuvegi upp í óbyggðir og plantað niður vindmyllum þar eins og ekkert sé þegar raunin er sú að það þarf bara mjög öfluga uppbyggða vegi til að koma á staðinn þeim stærstu krönum sem landið gæti átt til að reisa þessi möstur og viðhalda þeim. Mig langar að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Finnst honum komið nógu vel inn á tenginguna við þessa nauðsynlegu innviði, hvort sem það eru vegirnir, samgöngukerfið, hafnir eða tengivirki raforku í tillögunni eða þarf að ná betur utan um það?