154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

899. mál
[20:49]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið öðru sinni. Ég tek alveg heils hugar undir að hún er langlíf, þessi leiðindamýta um það að ef ekki er framleitt hér þá hljóti það að skapa einhvers konar mengun, sér í lagi er Kína og Asía nefnd í þessu samhengi, það er hinn helmingurinn af mýtunni. Ég veit að hv. þingmanni er fullkunnugt um það. En það sem hv. þingmaður spyr um og dregur upp er einmitt það frumvarp sem núverandi formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lagði fram á síðasta kjörtímabili. Það nálgaðist þetta mál vissulega með öðrum hætti. Ég sé hins vegar, sér í lagi í þessum lið 1.2, þar sem eru þau svæði landsins þar sem uppbygging virkjunarkosta í vindorku er óheimil, að þar er töluvert af því sem hafði verið rætt inni. Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að þarna þurfi að horfa á fleiri atriði, fleiri, ef ég hjó rétt eftir, veggi eða línur sem ekki á að fara yfir. Þá minnir mig nú endilega, ef ég rifja þetta upp hafandi séð og lesið og skilið það frumvarp ágætlega á þeim tíma, að þar hafi til að mynda verið umræða um mikilvæg fuglasvæði. Þau eru hins vegar ávörpuð með öðrum hætti í þessari tillögu hér. Þar var, held ég, líka upptalning á vatnsverndarsvæðum. Það laut kannski akkúrat að þeirri uppbyggingu í því frumvarpi þar sem var í rauninni búið að flokka landið fyrir fram. Við vitum að það sem sveitarfélögin áttu að taka ákvörðun um, ef ég man þetta rétt, var þó kannski frekar í nágrenni byggðarinnar sem um ræðir. Þar erum við líka gjarnan með vatnsverndarsvæði. Aftur vísa ég til þessa atriðis sem ég nefndi hér áðan varðandi umhverfisáhrif, til að mynda af spöðum sem verða fyrir miklu umhverfisálagi hvað varðar örplastið. Ekki viljum við það í auknum mæli í vatnið okkar.